Ingibjörg Ósk VíkingsdóttirFjölbreytni í starfi þroskaþjálfa

Ingibjörg Ósk Víkingsdóttir þroskaþjálfi
Ingibjörg Ósk Víkingsdóttir þroskaþjálfi

Allir ættu að eiga rétt til fullrar þátttöku í samfélaginu óháð sérþörfum eða skerðingu. Þroskaþjálfar starfa með einstaklingum á öllum aldri sem búa við einhverskonar skerðingu og veita þeir bæði faglega og persónulega þjónustu. Starf þroskaþjálfa felst m.a. í að vera ráðgefandi sérfræðingar í að móta og innleiða nýjungar í þeirri þjónustu sem þeir veita. Einnig eru réttindabarátta og réttindagæsla stór þáttur í starfi þeirra þar sem leitað er leiða til að ryðja burt hindrunum, stuðla að jöfnum tækifærum og bættum lífsgæðum. 
Þroskaþjálfar hafa í gegnum tíðina starfað víða þó meirihluti þeirra hafi unnið við að þjónusta einstaklinga með fatlanir. Stærsti starfsvettvangur þroskaþjálfa er í menntakerfinu en þeir starfa einnig í ýmiskonar velferðar- og félagsþjónustu, s.s. í búsetukjörnum, eða dagþjónustu.
Undirrituð starfar sem þroskaþjálfi í grunnskóla og vinnur með fjölbreyttum hópi nemenda þar sem enginn dagur er eins. Helstu verkefnin eru að kortleggja stöðu einstaklinga út frá þörfum, námsumhverfi og styrkleikum. Námsefni og námsaðstæður er aðlagaðar að þörfum einstaklinganna og áhersla lögð á að stuðla að aukinni færni þeirra.
Atvinnutækifæri þroskaþjálfa liggja víða enda alltaf styrkur að hafa þroskaþjálfa þar sem um einstaklingsmiðaða þjónustu við fólk er að ræða og eru þeir farnir að sækja í ný störf sem ekki hafa verið unnin af þroskaþjálfum áður. Undirrituð hefur nú gengið til liðs við Heilsu- og sálfræðiþjónustuna þar sem markmiðið er að bæta aðgengi að þjónustu þroskaþjálfa. Nú geta fjölskyldur óskað eftir aðstoð og stuðningi inn á heimili ásamt því að hægt er að bóka tíma í viðtal. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu og þarfir einstaklingsins hafðar að leiðarljósi hverju sinni. Við getum t.d. hjálpast að við heimanám, lestur, að útbúa umbunarkerfi, sjónrænar leiðbeiningar og ýmislegt fleira. Í kjölfar greininga býð ég, í samstarfi við frábært fagfólk stofunnar, upp á fræðslu fyrir börn, foreldra og forráðamenn. Það eru spennandi tímar framundan, ég hlakka til að vinna með ykkur og saman munum við leita lausna.


Athugasemdir

Nýjast