Elgur í vígahug

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Óður elgstarfur hljóp á eftir okkur hjónunum um niðdimman og þéttan skóginn. Stundum heyrðum við másið, fnæsið og urrið í honum rétt fyrir aftan okkur og þá var ekki um annað að ræða en að sprettinn. Undir morgun fundum við yfirgefinn og hurðarlausan bjálkakofa og földum okkur þar í efri koju. Þar sem við biðum í  myrkrinu skelfingu lostin heyrðum við elginn þramma inn í kofann. Drápsfýsnin kraumaði í hálsi hans. 

Þungt fótatakið færðist sífellt nær. Allt í einu féll tunglsljósið á hvöss horn elgsins, löðrandi í blóði og holdtætlum. Þá rak ég upp ægilegt óp en var farinn að losa svefn svo ég heyrði í sjálfum mér. Ósjálfrátt varð öskrið niðurbælt en fyrir vikið enn skelfilegra en ella, ísmeygilegt, ískrandi og endaði í hryglukenndu ýlfri. Eiginkonan hrökk upp með andfælum við hlið mér þegar langdregið og tryllingslegt ópið rauf næturkyrrðina. Ég vaknaði líka endanlega við hin skelfilegu óhljóð úr eigin barka. 

Þegar konan hafði náð andanum spurði hún hvað í ósköpunum gengi á. Mér fannst engin þörf á að útskýra það og trúði því mátulega þegar hún kannaðist ekkert við elginn þarna í hjónarúminu. Síðustu klukkutímana hafði hún jú verið með mér á flótta undan þessu skaðræðiskvikindi. Ást er að eiga sameiginlega drauma. Og martraðir. 

 


Athugasemdir

Nýjast