Eitt lítið andsvar til forseta sveitarstjórnar Norðurþings

Þorkell Björnsson. Mynd/Heiðar
Þorkell Björnsson. Mynd/Heiðar

Þorkell Björnsson skrifar

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings, Hjálmar Bogi Hafliðason, var í viðtali við Vikublaðið fyrir hálfum mánuði í tilefni af tillögu sem hann lagði fram í sveitarstjórn og var samþykkt. Tillagan gekk út á að hefja viðræður  við fulltrúa Gb 5 um nýtingu sveitarfélagsins á húsnæði að Garðarsbraut 5, sem í daglegu tali innfæddra er  kallað kaupfélagshúsið.

   Hjálmar Bogi sagði að um langtímaverkefni væri að ræða. Stjórnsýsluhúsið væri komið til ára sinna og kannski kominn tími til að endurskoða hve marga fermetra þyrfti til og hvernig skrifstofurými  menn vildu hafa.

 Meira eða minna rými

Ekki kemur fram í viðtalinu hvort stjórnsýslan þarf á að halda stærra eða minna rými til síns brúks. Hann leggur hinsvegar áherslu á að þetta sé aðeins á samræðustigi enn þá.  „Ég sé samlegðar áhrif í því að skoða þennan möguleika í samráði við Gb 5 hvort við getum fengið inni hjá þeim með skrifstofur".

„Með sameiginlegum  rýmum með annarskonar skrifstofum sem eru þar,“ útskýrir Hjálmar  og bætir við að tillagan snúist fyrst og fremst um hagkvæmni, að kanna hvort hægt sé að spara með þessari leið.

 Áfjáður í vistaskipti

Við lestur þessa viðtals er ljóst að forseti sveitarstjórnar er áfjáður í vistaskipti og það sem fyrst. Hann er lítt hrifinn af núverandi húsnæði stjórnsýslunnar. Hans upplifun er þessi:

„Nú er ég búinn að vera í þessu húsi síðan 2010, mín upplifun sem kjörinn fulltrúi sem kemur inn á fund  og tala við fólk, þá er þetta ekki endilega praktískasta húsnæðið. Fundarsalurinn finnst mér  t.d. ekki skemmtilegur".

Hann segir að endurbætur standi nú yfir í húsnæði að Garðarsbraut 5 og frekari uppbygging sé í farvatninu.

Og áfram heldur forseti sveitarstjórnar: „Þá sé ég fyrir mér samlegðaráhrif, að fulltrúar Gb 5 hanni þá uppbyggingu með þarfir sveitarfélagsins í huga".

Þarf utanaðkomandi aðila?

Rétt er að staldra aðeins við þessi orð forseta sveitarstjórnar. Er það ekki nokkuð skrýtið að fela Gb 5 að annast uppbyggingu „með þarfir sveitarfélagsins í huga". Eru þarfir sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu þess ekki löngu ljósar öllum stjórnar fulltrúum og hefur ekki  verið farið eftir því undanfarin ár,  eða þarf að kaupa utanað komandi aðila til snúa þessari sýn stjórnsýslunnar til betri vegar?

Forseti sveitarstjórnar segir varðandi aðgengi hreyfihamlaða að nú þegar sé fyrirhugað að koma fyrir lyftu í húsnæðinu að Garðarsbraut. Hann segir jafnframt að aðgengismál í stjórnsýslunni séu ekki viðundandi.

„Við erum með tvær hæðir hér í stjórnsýslunni og það er ekki aðgengi fyrir fatlaða að efri hæðinni með lyftu, þar er skrifstofa sveitarstjóra og fjármálastjóra" segir Hjálmar Bogi forseti sveitarstjórnar og að endingu ítrekar hann sína upplifun þess efnis að núverandi húsnæði sé ekki hentugt.

Næstum því rangt

Varðandi fullyrðingu um að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki viðunandi í stjórnsýslunni er það næstum því rangt. Eins og fram kemur hér að framan eru allar skrifstofur á jarðhæð nema skrifstofur sveitarstjóra og fjármálastjóra. Ég er viss um að hvorutveggja væru meira en fúsir til að skottast niður á jarðhæð og taka á móti þeim sem ættu við þá erindi, en kæmust ekki að sjálfsdáðum upp stigann.  Á Garðarsbraut 5 er hinsvegar engin lyfta en „fyrirhugað að koma fyrir lyftu“. Auðviðað vita allir að þrátt fyrir að fyrirhugað sé að gera hitt eða þetta er það nú svo að það getur verið löng bið eftir efndum slíkra loforða.

 Dýr vistaskipti

Allt frá árinu 1967 þegar bæjarskrifstofurnar fluttu inn í núverandi húsnæði, þá nýbyggt, hafa skrifstofur þess og síðar Norðurþings verið þarna til húsa. Í áranna rás hafa eðlilegar endurbætur og lagfæringar átt sér stað og byggt ofan á jarðhæðina. Augljóst er að ef húsnæði sem byggt yrði í dag fyrir þessa starfsemi þá liti það ekki svona út. Það má hinsvegar spyrja hvort þetta húsnæði sé ekki fullboðlegt fyrir þá starfsemi sem þar fer fram? Augljóst er að það kostar mikla fjármuni þau vistaskipti sem hér um ræðir.

Er allur sannleikurinn sagður?

Sala á grunneiningum sveitarfélagsins er eitthvað sem orkar tvímælis svo ekki sé fastara að orði komist. Þessi hugmynd sem hér eru til umræðu er enn ekki orðin að veruleika. Hinsvegar vaknar sú spurning hvort allur sannleikur  sé hér sagður. Er málið komið lengra og meirihluti sveitarstjórnar búinn að taka ákvörðun um sölu?

Í framhaldi af samþykkt sveitarstjórnarmanna um þessa tillögu forseta sveitarstjórnar Norðurþings vaknar sú spurning hvort nú eigi að endurtaka þann ömurlega gjörning frá árinu 2009 þegar raforkuhluti orkuveitu Húsavíkur var seldur  til RARIK ohf. og Orkusölunnar ehf. Þar með eignaðist RARIK  rafdreifikerfi orkuveitunnar og orkusalan tók við sölustarfsemi  Orkuveitu Húsavíkur 1. janúar 2010.

                        Þorkell Björnsson


Athugasemdir

Nýjast