Draumur eldri borgara á Akureyri drepinn með eins atkvæðis mun

Ásdís Árnadóttir
Ásdís Árnadóttir

Ásdís Árnadóttir skrifar

Forsaga málsins er að ég kona á níræðisaldri, búsett syðst í Hagahverfi ásamt mínum maka, komumst að þeirri niðurstöðu, að við myndum einangrast hér er færi að halla undan fæti, svo leit var hafin að húsnæði, nær þjónustu og fólki á okkar aldri.

Eftir leit að íbúð í svokölluðum eldri borgara blokkum hér í bæ (sem allar eru verðlagðar langt fram úr hófi án skýringa en eldra fólk lætur sig hafa það, til að vera nálægt fólki á svipuðu reki) ákvað ég að reyna að finna byggingarmeistara og lóð, þar sem byggja mætti blokk fyrir venjulegt fólk á almennu gangverði (60+)

Eftir langa leit gekk þetta allt upp, lóðin að Hulduholti 2 var hentug og verktakinn sem fékk lóðina úthlutaða tilbúinn að byggja og selja okkur.

Ég hafði stofnað hóp á Facebook fyrir áhugasama, haldið tvo fjölmenna fundi, þar sem hönnuður og verktaki sátu fyrir svörum, teikningar af tilvonandi íbúðum lágu frammi og höfðu 15 íbúðir af 24 verið skráðar á nafn, en nokkrir voru að skoða málið. Byggingarnefnd var stofnuð sem í sátu 5 eldri borgarar.

Eftir grenndarkynningu 2020 í nýju Holtahverfi, breytti skipulagsráð Akureyrar umræddri byggingu þannig að þriðja og efsta hæð yrði verulega inndregin með þeim afleiðingum að einungis yrði pláss fyrir lúxusíbúðir þar, í stað átta venjulegra.

Tillaga okkar þess efnis að plássið yrði fullnýtt á efstu hæðinni var lögð fram fyrir skipulagsráð sem tók ákvörðun 6. apríl s.l. Beiðni um nauðsynlega breytingu var hafnað með eins atkvæðis mismun af þeim Þórhalli Jónssyni, D-lista Guðmundi B Guðmundssyni B-lista og Arnfríður Kjartansdóttir, V-lista. Sindri Kristjánsson, S-lista og Ólöf Inga Andrésdóttir, L-lista voru mjög meðmælt breytingunni og létu bóka það sérstaklega.

Eftir fund með skipulagsstjóra bæjarins og bæjarstjóra í framhaldi af þessari óvæntu niðurstöðu kom í ljós að engu var hægt að breyta, eina lausnin að þeirra mati var að hefja ferlið aftur sem tæki a.m.k. 3 mánuði eða meira og gæti niðurstaðan þessvegna aftur orðið neikvæð. Við gengum af þeirra fundi, algjörlega buguð og sáum okkur ekki fært að halda áfram. Fallegi draumurinn var úti, að bærinn sem við höfum öll greitt gjöld til um langan aldur, og þjónað af trúmennsku myndi verðlauna þennan aldurshóp sem er frá 67-86 ára, fyrir að taka af þeim ómakið að koma upp byggingu fyrir eldra fólk sem sárlega vantar. Þarna var okkur neitað um hagkvæma breytingu á húsinu, sem hefði verið lítið mál að gera, að mati sérfræðinga, en viljinn var enginn.

Ásdís Árnadóttir, eldri borgari á Akureyri.


Athugasemdir

Nýjast