Aldey, oddviti V-listans svarar spurningum framkvæmdastjóra Völsungs

Aldey Unnar Traustadóttir
Aldey Unnar Traustadóttir

Aldey Unnar Traustadóttir skrifar

Takk fyrir spurningarnar kæri framkvæmdarstjóri Völsungs.

Íþróttastarfsemi er mjög mikilvægur þáttur í samfélaginu og það skiptir máli að haldið sé vel á öllum boltum þegar kemur að utanumhaldi. Áherslur okkar framboðs eru á að samtal og samráð sé alltaf haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og gjörðum sem snúa að íþróttastarfsemi.

Varðandi stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum þá erum við á V-listanum mjög hlynnt því að Norðurþing sinni íþrótta- og æskulýðsmálum af metnaði og tökum jákvætt í að slík stefna sé unnin á vettvangi sveitarfélagsins í samvinnu allra framboða. Aðstæður fyrir íþróttaiðkun eru mismunandi innan sveitarfélagsins. Á Húsavík er mjög fjölbreytt og góð aðstaða á mörgum sviðum en ekki eins fjölbreytileg í dreifðari byggðum. Áherslur okkar eru að við þurfum að gera ráð fyrir öllum kynjum og öllum fjölbreytileika. Við þurfum að vera með skýra sýn á forvarnir af öllu tagi og sérstaklega gagnvart hverskonar ofbeldi. Við þurfum að standa vörð um þá íþróttastarfsemi sem er nú þegar í gangi og halda áfram að byggja hana upp með fjölbreyttum leiðum.

Norðurþing á knattspyrnuvellina og ber ábyrgð á þeim, það er hárrétt. Það er ekki sérstök stefna V-listans í málefnaskrá að auka þjónustu á knattspyrnuvöllum Norðurþings ef innihald þessarar spurningar snýst um það. Við munum taka afstöðu til rekstrarkostnaðar og/eða fjárfestingar við íþróttamannvirki af vel athuguðu máli og að teknu tilliti til gagna sem munu liggja til grundvallar.

Norðurþing hefur verið og er að styrkja íþróttastarfsemi í Norðurþingi á ýmsan hátt, með beinu framlagi, útvistuðum verkefnum og frístundastyrk barna. Við munum halda því áfram og meta hverju sinni hvar þörfin er mest.

Áfram Völsungur og öll í gallana.

Aldey Unnar Traustadóttir, oddviti V-lista Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs og óháðra í Norðurþingi


Athugasemdir

Nýjast