
Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari skrifar Öskudagur - Þjóðhátíðardagur Akureyringa
Í dag er „þjóðhátíðardagur“ okkar Akureyringa – Öskudagurinn. Börn á Akureyri hafa haldið þennan dag hátíðlegan hálfa aðra öld, upphaflega að danskri fyrirmynd, enda Akureyri upphaflega danskur bær þar sem töluð var danska á sunnudögum. Jón Hjaltason sagnfræðingur skrifar um öskudaginn og bolludaginn víða í Sögu Akureyrar og segir frá því, að elsta áreiðanlega dæmið um að slá köttinn úr tunnunni, sem að vísu oftast var dauður hrafn, sé frá árinu 1867, en framan af hafi sá siður verið bundinn mánudegi í byrjun föstu. Ekki má heldur gleyma hópum barna, sem klæddu sig í skringilegan fatnað og fórum um bæinn og sungu og fengu í staðinn sælgæti og jafnvel peninga. Lengi framan af var fátítt að halda öskudaginn hátíðlegan annars staðar á landinu, en nú hefur siðurinn verið tekinn upp víða um land. Með öskudegi hefst langafasta eða sjö vikna fasta í kaþólskum sið. Öskudagur er ávallt miðvikudag sjö vikum fyrir páska og heitir á dönsku og norsku askeonsdag, á ensku Ash Wednesday og á þýsku Aschermittwoch.