Um 1450 nemendur skráðir til náms við Háskólann á Akureyri

Í haust eru um 1450 nemendur skráðir til náms við Háskólann á Akureyri. Í dagskóla eru skráðir um 650 nemendur og 475 í fjarnám. Að auki stunda um 325 nemendur í lotunámi. Stærsta deild skólans er nýstofnuð Hug- og félagsvísindadeild með um 630 nemendur innan borðs.  

Hvað einstaka námsleið varðar er viðskiptafræði vinsælust en þar eru skráðir 362 nemendur til náms í haust á öllum námsárum. Þann fyrsta ágúst síðast liðinn gengu kennaradeild og félagsvísinda- og lagadeild saman í eina sæng og heitir deildin nú hug- og félagsvísindadeild. Námsframboð er hið sama og áður og er eina breytingin sú að yfirstjórn er sameinuð. Deildarforseti nýju deildarinnar er Sigurður Kristinsson en hann gegndi áður starfi deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar.

Nýtt nám - Heimskautaréttur (Polar Law)

Við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri er boðið upp á þriggja missera (90 ECTS) meistaranám í heimskautarétti sem leiðir til prófgráðunnar LL.M. (Legum Magister, meistari í lögum) og fjögurra missera (120 ECTS) nám sem lýkur með M.A.-gráðu. Auk þess er boðið upp á tveggja missera (60 ECTS) diplómunám á meistarastigi og tveggja missera (60 ECTS) diplómunám á bakkalárstigi.

Í námi í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri er lögð sérstök áhersla á umhverfis-, auðlinda- og hafrétt, réttindi minnihluta og frumbyggjarétt, sem og landsrétt þjóða á heimskautasvæðinu. Nemendur kynnast réttarstöðu, stjórnskipun og stjórnsýslu landsbyggðar, jaðarsvæða og örríkja á heimsskautasvæðinu sérstaklega með hliðsjón af þróuninni í Evrópu (ESB) og út frá hugmyndum um „norrænu víddina" innan ESB og „vesturheimsvíddina", s.s. NAFTA. Einnig er fjallað ítarlega um lagalegar forsendur sjálfbærrar þróunar, mannlífsþróun á norðurslóðum og festu og gagnsæi í stjórnsýslu, stefnumótun á norðurslóðum og nýjungar í þjóðarétti.

Upphaf kennslu
Kennsla nýnema í grunnnámi hófst í dag,  þriðjudaginn 19. ágúst með dagskrá sem nefnd er velgengnisvika. Um er að ræða sérstaka kynningarviku sem hefur það að markmiði að undirbúa nýnema fyrir nám og starf í háskóla. Þar er tölvuumhverfi og þjónusta við nemendur kynnt samhliða því að nemendur vinna saman og kynnast eldri nemendum og starfsfólki. Boðið er upp á hagnýt undirbúningsnámskeið auk hópeflis og ætlast er til að allir nýnemar noti sér þessa daga til að undirbúa sig fyrir háskólanámið. Þetta er í sjöunda sinn sem velgengnisvikan er haldin, en hugmyndin er upphaflega fengin frá erlendum háskólum og er sérstaklega þekkt hjá skólum þar sem nemendur koma víðsvegar að. Boðið er upp á hliðstæða dagskrá fyrir skiptinema og nýja starfsmenn.

Kennsla eldri nemenda hefst mánudaginn 25. ágúst samkvæmt stundaskrá.

Nýjast