Fyrsta mark leiksins kom á 35. mínútu og þar var að verki Þorvaldur Árnason þegar hann slapp einn inn fyrir vörn Þórs og lagði boltann í fjærhornið og kom Stjörnunni yfir. Staðan í hálfleik 1-0 Stjörnunni í vil.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn með látum og voru nálægt því að bæta við öðru marki þegar 13 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik en Árni Skaptason var vel á verði í marki Þórs. Hann kom hinsvegar engum vörnum við á 76. mínútu þegar Ellert B. Hreinsson fór upp hægri kantinn og skoraði með laglegu skoti í fjærhornið og Stjörnumenn komnir í 2-0 og útlitið dökkt fyrir heimamenn.
Það var svo á síðustu andartökum leiksins sem Stjarnan skoraði þriðja markið í leiknum og það var Daníel Laxdal sem það gerði og tryggði Stjörnumönnum öruggan 3-0 sigur á Þórsurum í kvöld.