Þór og eiginkona hans voru á ferð syðra, þau stöldruðu við í húsi við Þverholt í um það bil hálftíma áður en leggja átti í hann norður til Akureyrar. Á meðan hefur óprúttinn náungi gert sér lítið fyrir, leitað uppi grjóthnullung, brotið afturrúðu bílsins og nælt í töskuna. Sú lítur út fyrir að vera fartölvutaska. Líklega hefur komið á þjófinn þegar hann opnaði töskuna, en í henni var alls ekki fartölva heldur Biblía! Lögregla sem kom á vettvang til skýrslutöku hafði á orði að vonandi sæi þjófurinn að sér og áttaði sig á villu síns vegar.
Það kom á daginn, í það minnsta gerðist það fáum dögum síðar að töskunni og innihaldi hennar var komið til skila. Skilvís kona hafði fundið þýfið við Hlemm sem er skammt frá Þverholtinu. Þór var að vonum ánægður með að hafa endurheimt Biblíu sína, en kveðst hugsa sig um tvisvar áður en hann skilur nokkuð eftir í bílnum í höfuðborginni, jafnvel þó stoppað sé stutt.