Valsstúlkur höfðu yfirhöndina í byrjun leiks og stjórnuðu leiknum en þeim gekk illa að skapa sér hættuleg færi. Heimastúlkur lágu aftarlega á vellinum og vörðust Valsstúlkum vel. Á 35. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu og skoruðu upp frá því fyrsta mark leiksins. Staðan í hálfleik 1-0 gestunum í vil.
Valsstúlkur bættu við öðru marki á 54. mínútu þegar Hallbera Guðný Gísladóttir skoraði úr auðveldu færi og gestirnir komnir í 2-0. Sex mínútum síðar fengu heimastúlkur aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig gestanna. Bojana Besic kom með fasta sendingu inn í teig þar sem Ivana Ivanovic var réttur maður á réttum stað og skoraði fyrir heimastúlkur og minnkaði muninn í eitt mark. Eftir þetta fóru Þórs/KA stúlkur að færa sig framar á völlinn og gera sig líklega til að jafna metin. Það var svo markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir sem gerði þær vonir að engu þegar hún innsiglaði 3-1 sigur Valsstúlkna með marki sex mínútum fyrir leikslok.
Eftir níu umferðir hafa Þórs/KA stelpur 10 stig og sitja í sjötta sæti deildarinnar.