Stærstu hluthafar í Fiskey leggja félaginu til nýtt hlutafé

Allir stærstu hluthafar í Fiskey hafa samþykkt að leggja nýtt hlutafé inn í félagið, samtals 34 milljónir króna. Stjórn félagsins hefur óskað eftir því að hluthafar komi með nýtt hlutafé í reksturinn að upphæð 50 milljónir króna. Rekstur Fiskeyjar hefur gengið erfiðlega síðastliðin tvö ár og tap verið á rekstrinum.

Þau hlutafjárloforð sem þegar eru fyrir hendi gera félaginu kleift að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og þá mun viðskiptabanki fyrirtækisins fjármagna rekstur þess til að ekki þurfi að koma til stöðvunar. "Þetta sýnir að enn hafa stærstu hluthafarnir, sem samtals eiga 75% af hlutafénu, trú á framtíðarrekstri þess," segir Kristján Ragnarsson formaður stjórnar Fiskeyjar en aðalfundur félagsins var haldinn nýlega. Kristján segir að á undanförnum tveimur árum hafi komið upp vandamál í tengslum við endurnýjun á klakstofni, frá villtum stofni að eldisstofni og þrátt fyrir að hrognaframleiðsla hafi verið mikil hafi gæðin verið léleg, þau eru ekki þau sömu og áður var. "Þetta hefur valdið okkur erfiðleikum sem leitt hafa til þess að miklir fjármunir hafa tapast og afkoman er óásættanleg," segir hann. Félagið var rekið með 84 milljóna króna tapi árið 2007 og seiðaframleiðsla var 300 þúsund seiði en áætlanir gerðu ráð fyrir að framleidd yrðu 600 þúsund seiði á árinu.

Kristján segir að of þröngt sé fyrir klakfisk á Dalvík og skjótra úrbóta þörf. Fyrsta skrefið verður að flytja eldishóp frá Dalvík til Hjalteyrar og þá verður framtíðarklakfiskur sem eftir er í stöðinni í Þorlákshöfn einnig fluttur þangað og stöðinni í Þorlákshöfn lokað endanlega. Einn af gömlu lýsistönkunum á Hjalteyri hefur verið endurbyggður í þeim tilgangi að taka við þessu hlutverki og segir Kristján einsýnt að þeim þremur tönkum sem eftir eru verði einnig breytt og allur klakfiskur verði á Hjalteyri, enda hagkvæmara að reka starfsemina á einum stað. Aðra meginástæðu slæmrar afkomu á síðastliðnu ári má rekja til sölusamnings sem gerður var í lok árs 2004 til fjögurra ára við Nordic Seafarms í Noregi um sölu seiða. Nú hefur nýr samningur verið gerður milli fyrirtækjanna sem gerir ráð fyrir hærra verði fyrir seiði en var og mun skila sér í auknum tekjum hjá Fiskey á næsta ári. Kristján segir að um alger umskipti sé að ræða hvað varðar afkomumöguleika fyrirtækisins í náinni framtíð. Nú sé búið að tryggja sölu á seiðum til næstu ára á hagstæðu verði til tveggja fyrirtækja í Noregi sem og einnig til Silfurstjörnunnar á Kópaskeri þar sem áframeldi fer fram. Hefur Kristján trú á því taprekstri verði nú snúið í umtalsverðan hagnað.

Nýjast