Skipulagsstofunun óskar frekari skýringa vegna deiliskipulags við Undirhlíð

Skipulagsstofnun hefur sent skipulagsnefnd Akureyrar erindi þar sem fram kemur að stofnunin getur ekki tekið afstöðu til efnis eða forms deiliskipulags við Undirhlíð - Miðholt fyrr en skýringar/lagfæringar hafa borist á ýmsum atriðum.  

Eins og fram hefur komið samþykkti meirihluti skipulagsnefndar á fundi sínum í júní sl. að leggja til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagi íbúðasvæðis á reit er markast af Undirhlíð, Langholti, Miðholti og Krossanesbraut verði samþykkt. Byggingarfyrirtækið SS Byggir hafði leitað eftir leyfi bæjaryfirvalda til að byggja tvö 7 hæða fjölbýlishús fyrir allt að 70 íbúðir á umræddu svæði. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 gerir ráð fyrir þéttingu byggðar á reitnum, nýrri íbúðarbyggð með þéttleika allt að 25 íb/ha. Samkvæmt því er heimilt að byggja 57 íbúðir á svæðinu.

Skipulagsstofnun telur m.a. að skýra þurfi nánar í greinargerð með deiliskipulagstillögunni hvaða ábyrgð lóðarhafi beri í framtíðinni á hugsanlegum breytingum á vatnsborði vegna grundunar viðkomandi húss. Þá er óskað er eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir sem fylgja deiliskipulagstillögu og hvort ekki þurfi að móta byggingareitinn m.t.t. þeirrar tillögu í skipulagsskilmálum.
Einnig telur Skipulagsstofnun að útskýra þurfi nánar bílakjallara sem að hluta til eru ofanjarðar og falla því ekki undir skilgreiningu um kjallara skv. byggingareglugerð.
Jafnframt er óskað eftir útskýringum hvort göngustígur innan lóðar sé fyrir almenna umferð. Ef svo er felur það í sér kvöð innan lóðar, að mati Skipulagsstofnunar.
Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að við jarðvegsskipti á lóðum skuli leita allra leiða til að koma í veg fyrir lækkun vatnsborðs í jarðvegi og að lóðarhafi sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni og skemmdum á yfirborði gatna og nærliggjandi mannvirkjum sem rekja megi til breytinga á vatnsborði. Nú þegar eru í gangi rannsóknir og eftirlit með stöðu vatnsborðs í nágrenni lóðar. Lóðarhafi er ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja má til breytinga á vatnsborði á meðan á framkvæmdum stendur og lokaúttekt hefur farið fram. Þetta mun verða áréttað í greinargerð.
Í öllum gögnum er málið varðar er gengið út frá krosslaga byggingu sem aldrei getur nýtt kassalagaðan byggingarreitinn eins og hann er sýndur á uppdrætti. Því er lagt til að byggingarreitum verði breytt á uppdrætti og þeir mótaðir og aðlagaðir að fyrirhugaðri byggingu.
Lagt er til að texta í kafla 5.4 um bílakjallara verði breytt á eftirfarandi hátt: B1 Niðurgrafin bílgeymsla: Byggingarreitur er 2850 m2. Reiturinn liggur á milli byggingarreita fjölbýlishúsa. Hámarksbyggingarmagn er 2500 m2. Byggingin er niðurgrafin að öllu leyti, ef frá er skilinn innkeyrslurampur bifreiða og minniháttar gluggar á norðurhlið. Norðurhlið er að mestu hulin jarðvegi sem hallar til norðurs. Gert er ráð fyrir almennri göngutengingu á milli Undirhlíðar og grenndar- og hverfisvallar í norðri. Um kvöð er að ræða og mun sú kvöð verða innfærð á uppdrátt.

Nýjast