Skipulagsnefnd vill breytingu á lóð fyrir Hagkaupsverslun

Skipulagsnefnd Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að leggja til við bæjarstjórn, að aðalskipulagstillaga er varðar breytingu á lóð við Austursíðu fyrir Hagkaupsverslun, verði samþykkt.  

Ein athugasemd barst við tillöguna, frá Benedikt Guðmundssyni Fögrusíðu 1a. Hann gerir athugasemd við tillöguna þar sem umferð við Austursíðu eykst enn frekar en hans lóð liggur að götunni. Hann hefur áður sent inn athugasemdir sem varða hljóðvarnir og hraðahindranir. Jóhannes Árnason sat hjá við afgreiðslu málsins í skipulagsnefnd og óskaði bókað: "Ég álít að áhyggjur íbúa séu eðlilegar. Ég get ekki tekið undir að nægjanlegt sé að bregðast við aukinni umferð og hávaða einungis við hluta Austursíðu. Eðlilegast væri að stefna að því að takmarka gegnumakstur um Austursíðu og bregðast við hávaða í allri götunni. Ég get því ekki tekið undir þessa afgreiðslu."

Ennfremur kemur fram í fundargerð skipulagsnefndar að skýrslur hafi borist frá verkfræðistofunni Línuhönnun um hljóðvist og umferð. Þar kemur fram að gera þurfi úrbætur á hljóðstigi við Lindasíðu 1-7, þar sem jafngildishljóðstigið er um 64dB(A) og húsið byggt 2003 eða eftir gildistöku reglugerðar nr. 933 um hávaða frá 1999. Í samantekt og niðurstöðu umferðarskýrslu kemur m.a. fram að; "Umferðaraukning vegna fyrirhugaðs verslunarhúsnæðis við Austursíðu 2 mun ekki hafa mikil afkastaleg áhrif á núverandi gatnakerfi. Það er helst á gatnamótum Hlíðarbrautar og Austursíðu þar sem vinstri beygjan af Austursíðu er erfið nú þegar. Æskilegt er að leitast við að halda hámarkshraða í samræmi við skiltaðan hámarkshraða sem og að tryggja öryggi og aðgengi gangandi vegfarenda."
Í framhaldi af niðurstöðum sem fram koma í skýrslu er óskað eftir að framkvæmdadeild ráðist í úrbætur á hljóðvist við Lindasíðu 1-7 og aðgerðir til að halda niðri umferðarhraða í Austursíðu.

Nýjast