Sigur hjá KA en jafntefli hjá Þór í kvöld

KA- menn unnu góðan sigur á Njarðvík í 16. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu þegar liðin mættust á Akureyrarvelli í kvöld. Þá gerðu Þór og Stjarnan 1-1 jafntefli á Stjörnuvelli í kvöld. Hreinn Hringsson skoraði mark Þórs í leiknum.

Í leik KA og Njarðvík var jafnræði með liðunum fyrstu mínútur leiksins og gekk báðum liðum erfiðlega að skapa sér færi. KA- menn fóru að sækja meira eftir því sem á leið leikinn og voru líklegri til þess að skora. Það voru hins vegar gestirnir í Njarðvík sem skoruðu fyrsta mark leiksins og það gegn gangi leiksins, það kom á 30. mínútu leiksins og var þar að verki Aron Smárason sem skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf frá hægri kanti. Heimamenn náðu að jafna leikinn tveimur mínútum fyrir leikhlé og það var Arnar Már Guðjónsson sem það gerði með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Staðan í hálfleik, 1-1.

Það var svo tíu mínútum fyrir leikslok að heimamenn náðu að tryggja sér sigurinn. Dean Martin átti þá góða fyrirgjöf inn í teig gestanna og þar var Elmar Dan Sigþórsson mættur og skallaði boltann í netið. Lokatölur á Akureyrarvelli, 2-1 sigur KA.

Eftir leikinn hefur KA 22 stig í fimmta sæti deildarinnar en Þór situr í níunda sæti með 17 stig.

Nýjast