Sigbjörn skrifar eftirfarandi: Ráðgert hafði verið að undirritaður lyki störfum fyrir Þingeyjarsveit í nýliðinni viku. Forlögin tóku hins vegar í taumana og ég var lagður inn á sjúkrahús þannig að mér reyndist ekki unnt að ljúka störfum mínum með þeim hætti sem ég hefði kosið. Fyrir réttum tveimur árum var ég ráðinn sveitarstjóri Þingeyjarsveitar. Í aðdraganda að ráðningu minni kom skýrt fram í viðtölum við sveitarstjórn, að brýnasta verkefnið fram undan væri að ná betri tökum á fjármálum sveitarfélagsins en verið hafði. Þá var og ljóst að sameiningarviðræður og hugasanleg sameining Þingeyjarsveitar við sveitarfélög í nágrenninu yrði ofarlega á baugi.
Enn fremur kom fljótt í ljós að nauðsynlegt reyndist að skerpa á ýmsum reglum svo sem setningu og kynningu gjaldskráa og slíkum hlutum. Allt tók þetta sinn tíma eins og gengur. Aðalatriðið er, að á undraskömmum tíma tókst með samhentu og markvissu átaki helstu starfsmanna sveitarfélagsins að ná tökum á fjármálunum og áætlanagerð. Starfsmennirnir lögðust á eitt. Að sjálfsögðu var hlutur sveitarstjórnarinnar jafnframt mikill, þar sem hið endanlega vald liggur hjá henni.
Þá hafa allar reglur, eða allflestar, verið gerðar skýrari og gegnsærri, þannig að íbúar og aðrir eigi ekki að fara í grafgötur um hverjar reglur gilda. Enn fremur hafa boðleiðir innan skrifstofu Þingeyjarsveitar verið bættar verulega. Það sem hér er talið á undan er íbúunum ekki alltaf sérlega sýnilegt, nema betur sé að gáð. Hins vegar er það ekkert flókið, að fjármálin og regluverkið þurfa að vera reist á traustum grunni ef sveitarfélagið (fyrirtækið, heimilið o.sv. frv.) á að geta þrifist. Þar skal grunnurinn lagður og agi verður að ríkja.
Ég tel að farið hafi verið heldur geyst af stað við sameiningu sveitarfélaganna fjögurra á sínum tíma og nokkuð hafi skort á reynslu og þekkingu til að byggja upp grunnviði sveitarfélagsins. Því eru ugglaust ekki allir sammála, en svo verður þá að vera. Það er ekki ætlunin að kasta rýrð á störf nokkurs manns með orðum mínum, enda engin ástæða til. Allir unnu af fullum heilindum fyrir samfélagið.
Við núverandi sameiningu standa menn betur að vígi. Því á ekkert að vera að vanbúnaði til að mynda nokkuð öflugt sveitarfélag. Gerið ykkur hins vegar ekki of miklar væntingar um miklar framkvæmdir á skömmum tíma. Vítin eru til að varast. Treystið umfram allt grunninn á þeim tveimur árum sem núverandi kjörtímabil varir.
Ég hugðist ljúka störfum mínum fyrir Þingeyjarsveit í síðustu viku eins og áður hefur fram komið. Ætlaði ég að ganga frá nokkrum smærri málum og semja stutta skýrslu um s.l. tvö ár sem felld yrði í fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar. Þá hugðist ég kveðja samstarfsmenn a.m.k. um sinn.
Fyrir nokkru hafði verið ákveðið að ég færi í einfalda rannsókn á Akureyrarspítala mánudaginn 7. júlí. Hugðist ég síðan mæta til starfa í Kjarna á þriðjudeginum. Rannsóknin skyldi taka u.þ.b. hálfa til eina klst. Skemmst er frá að segja að framhald varð á rannsóknunum næstu daga og uppgötvaðist að ég er haldinn erfiðu meini. Þegar litið er um öxl vita þeir sem næst mér hafa staðið að ég hefi ekki gengið heill til skógar síðustu mánuði og hefi ég sjálfur ekki viljað viðurkenna ástandið fyrir sjálfum mér né öðrum.
Þegar slíkar aðstæður koma upp sem að framan er lýst verða skyndilega miklar breytingar á högum og áformum. Ég hafði sannarlega ætlað mér að sækja um sveitarstjórastarf hjá nýju sameinuðu sveitarfélagi, enda hef ég haft hugmyndir um og skoðanir á, hvað mikilvægast væri að gera við upphaf starfsemi sameinaðs sveitarfélags og brennandi áhuga á að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Þau áform hafa verið lögð á hilluna enda þarf ég og fjölskylda mín á öllu okkar þreki að halda á næstu vikum og mánuðum við annað verkefni.
Með þessari kveðju til íbúa Þingeyjarsveitar hef ég farið fáum orðum yfir það sem liðið er og enn fremur skýrt frá mínum högum eins og þeir blasa nú við þannig að frá fyrstu hendi sé, enda hefi ég alltaf viljað að skoðanir mínar mættu sem flestum ljósar vera.
Ég mun í framtíðinni verða reiðubúinn hvenær og hvar sem er til að greiða götu hins sameinaða (enn þá nafnlausa, þegar þetta er ritað) sveitarfélags og íbúa þess sé mér þess nokkur kostur.
Kærar þakkir fyrir samstarfið til þessa. Sjáumst fljótt aftur.
Sigbjörn Gunnarsson (sigbjorng@internet.is)
Ritað sunnudaginn 13. júlí 2008.