Eins og fram hefur komið þá ákvað ríkisstjórnin að leggja 50 milljónir króna í markaðsstarf fyrir markaðssetningu yfir veturinn. Um er að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og fyrirtækja í ferðaþjónustu undir forystu Ferðamálastofu. Valið var að nota stærstan hluta fjármagnsins á þeim fjórum markaðssvæðum sem þjónað er með flugi á heilsársgrunni, þ.e. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Norðurlöndunum og ákveðnum mörkuðum í Evrópu, í samstarfi með íslenskum flugfélögum tveimur sem þjóna landinu allt árið um kring.
Koma blaðamannaheimsóknum í fastara form
Hluti fjármagnsins verður nýttur til að fylgja átakinu eftir, en mat Ferðamálastofu er að það fé verði best nýtt
í blaðamannaheimsóknir og kynningarmót íslenskrar ferðaþjónustu og erlendra birgja. Á fundinum með markaðsstofum landshlutanna
var meðal annars farið yfir hvað væri framundan á þeim vettvangi á næstum mánuðum og samstarf Ferðamálstofu og markaðsstofanna
í þessum efnum. Ferðamálastofa vill m.a. vinna að því að koma blaðamannaheimsóknum í fast form með þátttöku
markaðsstofa og aðila í svæðisbundinni markaðssetningu, þannig að unnt sé að nýta krafta stofnunarinnar í að kveikja áhuga
og draga blaðamenn til landsins, á meðan heimamenn leiða í ríkari mæli skipulagningu heimsókna, m.a. með því að og fá
ferðaþjónustuaðila til liðs við ferðir með framlagi þjónustu og vöru. Einnig var markaðsstofunum kynnt sú
aðferðafræði sem Ferðamálastofa beitir til að tryggja gæði blaðamanna og eftirfylgni vegna birtinga. Meðal annarra atriða sem farið var yfir
á fundinum voru vefmál, „workshop" sem framundan eru, fjármögnun markaðsstofanna og fleira.
Að sögn Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra stendur vilji Ferðamálastofu til þess að efla samstarf við markaðsstofur landshlutanna. Stefnt er að því að fundum sem þessu verði haldið áfram og að aðilar hittist nokkrum sinnum á ári til skrafs og ráðagerða. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu.