Orkuskattur gæti haft afgerandi áhrif á rekstur Becromal

Gauti Hallsson framkvæmdastjóri Becromal á Íslandi segir að komi til þess að sérstakur orkuskattur verði lagður á hér á landi, eins fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, geti það haft afgerandi áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækisins og hugmyndir um frekari stækkun verksmiðjunnar.  

Starfsemi í aflþynnuverksmiðju Becromal hófst í Krossanesi fyrir skömmu og nú þegar er búið að taka í notkun sex af  62 vélum verksmiðjunnar. Gauti segir ráðgert að allar vélar verksmiðjunnar verði komnar í gang árið 2011. Alls starfa rúmlega 30 manns í verksmiðjunni en þegar hún verður komin í fullan gang verða starfsmenn um 90 talsins.

Gauti segir að til greina komi að stækka verksmiðjuna umtalsvert í framtíðinni en að hugmyndir um frekari skatta og gjöld gætu breytt þar miklu. "Á lóðinni er rými til að stækka verksmiðjuna um helming og við erum með orkusamning um tvöföldun framleiðslunnar. Ef til stækkunar kemur myndi starfsmönnum fjölga að minnsta kosti um 30 og þá myndu starfa hér rúmlega 120 manns. Ákvörðun um hvort af stækkun verður eða hvenær, verður þó ekki tekin fyrr en á næsta ári. Ef ekkert breytist verður ráðist í stækkun en hugmyndir um frekari skatta og gjöld sem nú hafa verið kynntar, gætu breytt miklu og þá er hætta á að rekstrarforsendur verksmiðjunnar sem við vorum að gangsetja séu brostnar. Miðað við fyrirliggjandi forsendur á verksmiðjan að skila hagnaði, svo framarlega sem að ekki verði lagðir á reksturinn furðulegir skattar og skyldur. Það rekur enginn fyrirtæki með tapi til lengdar," segir Gauti.

Hann segir það mjög eðlilegt í rekstri fyrirtækja, ekki síst fyrirtækja sem tengjast iðnaði, að hagnaður fyrir afskriftir sé á bilinu 4-6% af veltu. "Það þykir mjög gott að ná 10% hagnaði og það eru sérstök fyrirtæki sem ná 15% hagnaði. Ef verið að tala um eina krónu á kílówattstund aukalega á okkur, mun það vera eitthvað sem skilur á milli hagnaðar og taps þar sem starfsemin hjá okkur er mjög orkufrek. Fjárfestar forðast allt það sem heitir hringl með skatta og gjöld á fyrirtæki og þeir forðast lönd þar sem hlutunum er þannig háttað. Það er líka talað um pólitíska áhættu og ég myndi segja að hún væri frekar há á Íslandi þessa stundina," sagði Gauti.

Nýjast