Heimamenn fengu fyrsta færi leiksins strax á 1. mínútu þegar Gyula Horvarth fékk sendingu inn í teig gestanna en skot hans fór hátt yfir markið. Eyjamenn fengu síðan fínt færi á 8. mínútu þegar Augustine Nsumba fékk frítt skot inn í teig heimamanna en skot hans fór beint í varnarmann KA. Þegar tvær mínútur voru til loka fyrri hálfleiks fengu heimamenn hornspyrnu. Dean Martin tók spyrnuna og Elmar Dan Sigþórsson var mættur til þess að taka við boltanum og þrumaði honum glæsilega í netið. Staðan í hálfleik, 1-0 fyrir heimamenn.
Eftir frekar jafna byrjun í seinni hálfleik tóku Eyjamenn fljótlega öll völd í leiknum, staðráðnir í því að jafna metin og þurfti Matus Sandor í marki KA- manna oft á tíðum á taka á honum stóra sínum. Það var svo stundarfjórðungi fyrir leikslok að gestirnir náðu að jafna metin, þar var að verki Ingi Rafn Ingibergsson er hann fékk sendingu inn í teig heimamanna og skoraði með góðu skoti. Staðan orðinn jöfn, 1-1. Steinn Gunnarsson kom inn á í lið KA- manna eftir jöfnunarmarkið og hann átti heldur betur eftir að minna á sig. Þegar tvær mínútur voru eftir af hefðbundnum leiktíma átti Andri Júlíusson sendingu inn í teig gestanna frá vinstri kanti og þar var Steinn Gunnarsson réttur maður á réttum stað og skoraði með góðu skoti í nærhornið og tryggði KA- mönnum öll þrjú stigin sem voru í boði í kvöld.
Eftir sigurinn í kvöld eru KA- menn komnir í fjórða sæti deildarinnar með 26 stig.