Húsið enn svartur blettur á miðbænum

Jón Ingi Cæsarsson formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar segir það vonbrigði að nýir eigendur Hafnarstrætis 98, hafi “ekki axlað þá ábyrgð að koma útliti hússins í lámarks skikk… rífa upplitaðar auglýsingar úr gluggum og helst að pakka húsinu inn í net sem hylur hörmungina sem blasað hefurvið bæjarbúum og gestum á annan áratug,” eins og hann skrifar á bloggsíðu sína.

KEA keypti húsið fyrir nokkrum mánuðum með það í huga að gera það upp, en að mati Jóns Inga er um flókið verkefni að ræða og kallar á mikla undirbúningsvinnu, sem jafnvel kostar um 2-300 milljónir króna, fari menn í að bæta við húsið til viðbótar við það að gera upp nánast ónýtt hús. Nefnir Jón Ingi að burðarviðir séu ef til vill þokkalega heilir en annað varla nothæft, þá eigi eftir að koma í ljós hvernig grunnur og undirstöður eru.

“Það hefur nákvæmlega ekkert verið gert og húsið er enn svartur blettur á miðbænum og dregur niður húsin tvö sunnan við sem þó eru í afar góðu standi,” skrifar Jón Ingi og kveðst eiginlega verkja þegar hann gangi fram hjá húsinu og við blasi “þetta lík sama hvernig maður reynir að leiða það hjá sér….það eru eiginlega vonbrigði eftir þær væntingar sem maður hafði þegar nýjir eigendur birtust af himnum,” segir hann og skorar á eigendur að grípa til ráðstafana þegar í stað til að lágmarka þann skaða sem þetta hús er í Hafnarstrætinu.

Nýjast