GV gröfur buðu lægst í gatnagerð í Nesjahverfi

Verktakafyrirtækið GV gröfur átti lægsta tilboð í gatnagerð í Nesjahverfi á Akureyri en tilboðin voru opnuð í dag. Alls bárust þrjú tilboð í verkið og voru þau öll undir kostnaðaráætlun. Tilboð GV grafa ehf. hljóðaði upp á tæpar 125 milljónir króna, sem er um 70% af kostnaðaráætlun en hún er 178,5 milljónir króna. G. Hjálmarsson hf. bauð um 134,2 milljónir króna, eða um 75% af kostnaðaráætlun og Árni Helgason ehf. bauð um 171,3 milljónir króna, eða um 96% af kostnaðaráætlun. Tilboðið nær til nýbyggingar gatna ásamt tilheyrandi lögnum. Um er að ræða Óðinsnes milli Ægisness og Baldursness og er lengd götu um 550 metrar. Skiladagur verksins er 30. september í haust. Samkvæmt upplýsingum frá Helga Má Pálssyni deildarstjóra framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar, er verið að fara yfir tilboðin og verða þau síðan lögð fyrir framkvæmdaráð á morgun, föstudag, til ákvörðunartöku.

Nýjast