Sagan gerist árið 1222, í upphafi Sturlungaaldar þegar hefndin er enn lykilhugtak í íslensku samfélagi þótt landsmenn séu orðnir kaþólskir og kirkjuræknir. Söguhetjur eru bræðurnir Kolsveinn og Kálfur, ungir Grímseyingar sem koma til Gása í mikilvægum erindagjörðum. Strákarnir eiga harma að hefna eftir föður sinn en þeir ætla sér líka að verða ríkir og þar kemur dularfullur kassi við sögu. Á Gásum kynnast bræðurnir krökkum sem síðar verða þekktir þátttakendur í róstum Sturlungaaldar; Sturlu Þórðarsyni og Þórði kakala. Þeir hitta líka frægt fólk eins og Snorra Sturluson, Guðmund biskup Arason og Sighvat á Grund.
Fimmtudaginn, 19. Nóvember, verður bókin kynnt fyrir kennurum á Eyþingssvæðinu því á síðunum http://www.gasir.is og http://www.minjasafnid.is verður hægt að finna kennsluleiðbeingar með bókinni fyrir áhugasama kennara. Laugardaginn 21. nóvember milli kl 14 -1 6 mun Brynhildur lesa uppúr bók sinni fyrir börn á öllum aldri, nemendur úr Þelaverkurskóla verður afhent eintak af bókinni þar sem hún gerist jú í þeirra heimasveit og unnið verður að handverki frá miðöldum.
Gásagátan var rituð í samstarfi við Gásakaupstað ses. og Minjasafnið á Akureyri með styrk frá Menningarráði Eyþings. Markmiðið með rituninni var tvíþætt, annars vegar að vekja athygli á sögu Gása, mesta verslunarstaðar Norðurlands á miðöldum, og hins vegar að auðvelda börnum að upplifa Íslandssöguna á spennandi og skemmtilegan hátt.
Brynhildur Þórarinsdóttir, er rithöfundur og lektor í barnabókmenntum við Háskólann á Akureyri. Gásagátan er áttunda barnabók Brynhildar sem hlotið hefur margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir spennusöguna Leyndardóm ljónsins og fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum Njálu, Eglu og Laxdælu, hlaut hún norrænu barnabókaverðlaunin 2007.