Í hjarta norðlenskrar náttúru, þar sem fjöllin mæta hafi og birkiskógar vaxa úr hrauni, liggur ein af sérleiðum The Rift MTB – fimm daga fjallahjólakeppni sem fór fram á Norðurlandi 27. – 31. ágúst sl. Keppnin hefur vakið athygli hjólreiðafólks víðs vegar að úr heiminum en hún spannar fjölbreytt landslag Norðurlands, sameinar þolraun, tækni og náttúruupplifun á einstakan hátt.
Um er að ræða fimm daga áfangaferð á fjallahjólum fyrir tveggja manna lið sem fór um einstakt landslag Norðurlands. Leiðirnar lágu um grýtta stíga, meðfram kyrrlátum ströndum Eyjafjarðar og yfir hálendishéruð með stórkostlegt útsýni yfir norðurslóðir. Þátttakendur tókust á við jafnar brekkur, skemmtilegar niðurkeyrslur og einstaka stíga sem liðast í gegnum birkiskóga og hjólreiðagarða. Alls voru 34 lið skráð til keppni eða 68 manns.
Hver dagur bauð upp á eitthvað nýtt—malarvegi, afskekkta stíga og raunverulega ævintýratilfinningu. Keppnin veitti tækifæri til að upplifa hráa fegurð Norðurlands á tveimur hjólum.
Leiðirnar voru mjög fjölbreyttar milli áfanga. Þær samanstóðu af malbiki, möl, leðju, grýttu undirlagi, tæknilegum köflum og flæðandi einstígum í hjólreiðagörðum. Jarðvegurinn getur verið bæði þéttur og hraðfær eða laus og sandkenndur. Einnig voru nokkrar ár og lækir sem þurfti að vaða, sem voru krefjandi. Keppnin reyndi svo sannarlega bæði á þol og tækni keppenda.
Hver áfangi var á bilinu 50–100 km að lengd og fól í sér 1000–2500 metra hækkun/lækkun.
Ein af sérleiðunum fór í gegnum Húsavík og endaði niður við höfn. Rafhjólaklúbburinn 640Mtb sem áður hefur ratað á síður Vikublaðsins fyrir ötult uppbyggingarstarf í íþróttinni; aðstoðaði við skipulagningu sérleiðarinnar en Aðalgeir Sævar Óskarsson segir í samtali við blaðið að þetta hafi verið gríðarlega stór viðburður sem vonandi verði framhald á.
„Þetta er viðburður sem að Lauf cycles eru að halda. Þetta byrjaði þegar þeir komu á laggirnar keppni sem heitir The riff og er sem sagt gravel keppni fyrir sunnan [malarkeppni]. Þeir hjá Lauf eru búnir að keyra á þetta í nokkur ár en eru núna að færa sig meira í fjallahjóla pælinguna og eru þá komir í nokkuð sem heitir Rift mbt. Þetta er í raun fjallahjóla útgáfa af gravel keppninni,“ útskýrir Aðalgeir og bætir við að um sé að ræða mjög stóra keppni og langar vegalengdir.
„Keppendur voru m.a. að hjóla frá Akureyri og þar í kring og inn á Dalvík og Siglufjörð. Svo fóru þeir í Mývatnssveit upp í Kröflu og niður í Þeistareyki og svo niður til okkar. Svo á sunnudeginum fóru þeir frá Akureyri og upp Vaðlaheiðina út í Vaglaskóg, upp á Vaðlaheiði aftur og niður í Skógarböð. Þetta er í raun svona þolkeppni. Okkar sérleið var alveg 77 km. og keppnin í heild tók fimm daga,“ segir Aðalgeir og bætir við að fjöldi keppenda hafi tekið þátt.
„Það voru 34 lið en það var eitt lið sem lenti í því að detta og skaða sig á fyrsta degi, á fyrstu tuttugu mínútunum annars var þetta 33 lið eða 66 manns sem luku keppni,“ segir Aðalgeir ennfremur en mikil vinna fór í að skipuleggja keppnina.
„Þeir hjá Lauf höfðu samband við okkur í byrjun júlí þegar þeir voru í brautarskoðun. Við hittum þá og vorum í sameiningu í 640mtb að vinna í þessu með þeim. Þeir voru þá að skoða brautir og ákváðu leiðina og vildu fá eina sérleið hjá okkur og voru í góðu sambandi við okkur allan tímann. Við vorum t.d. að sjá um merkingar fyrir þá og hjálpa til við að fá Björgunarsveitina í lið með okkur í brautargæslu, fá leyfi hjá Norðurþingi og ýmis praktísk atriði. Annars sáu þeir alfarið um framkvæmdina á þessu,“ útskýrir Aðalgeir.
Keppt var bæði í opnum flokki og flokki atvinnuhjólara en þarna voru gríðarlega sterkir keppendur á ferð. „Þetta er fyrsta mótið þessarar tegundar hér á Íslandi en þeir sem skipulögðu það lýstu ánægju sinni með þetta og mér heyrðist á þeim að þeir ætluðu sér stærri hluti og fara upp í 100 lið sem er þá 200 manns. Ef að líkum lætur, þá gætum við fengið að hafa byrjunar og endamark á okkar svæði hér á Húsavík. Þá náttúrlega verður miklu meira í kringum þetta og við þurfum stærra svæði og þá er klárt mál að það verður alveg heill dagur undirlagður í þetta bara hér á Húsavík,“ segir Aðalgeir og er þegar farinn að láta sig dreyma um risaviðburð á næsta ári.
„Ef það verða 100 keppendur og fullt af fólki í kringum þetta, - þá erum við að tala um mörg hundruð manns á svæðinu ef af þessu verður. Við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð frá þátttakendum og skipuleggjendur voru mjög ánægðir með hvernig til tókst. Við í 640Mtb gerðum allt sem við gátum til að tryggja það að við fengjum þetta mót aftur til Húsavíkur ef mótið verður aftur haldið á Norðurlandi sem er mjög líklegt,“ segir Aðalgeir að lokum.