Engar breytingar fyrirhugaðar hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri

"Eins og staðan er núna verða ekki neinar breytingar," segir Ágúst Ólafsson forstöðumaður Ríkisútvarpsins á Akureyri, en nýlega voru kynntar hugmyndir um niðurskurð í starfsemi Ríkisútvarpsins.  

Ágúst segir að einum tæknimanni hafi verið sagt upp störfum með 6 mánaða uppsagnafresti, en honum jafnframt boðið lægra starfshlutfall frá og með næstu áramótum.  Þá verður ekki ráðið í stöðu fréttamanns sem hyggst láta af störfum næsta haust, en Ágúst segir að þau mál verði leyst, að líkindum með skammtímaráðningum.  "Við munum halda ótrauð áfram að því að framleiða efni héðan að norðan svo sem verið hefur, fyrir svæðisútvarp, Útvarp og Sjónvarp.  Það skiptir mestu að við höldum áfram af fullum dampi. Við höfum á liðnum mánuðum framleitt gríðarlega mikið efni á landsvísu og markmið okkar er að auka það fremur en hitt," segir Ágúst.

Nýjast