Einar Sigþórsson hetja Þórsara í dag

Einar Sigþórsson var hetja Þórsara þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Víkingi Ó., er liðin mættust í 17. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu á Akureyrarvelli í dag. Sigurmarkið kom á lokamínútu venjulegs leiktíma. 

Það voru hins vegar gestirnir í Víkingi Ó. sem náðu að skora fyrsta mark leiksins og það gerði Miroslav Pilipovic á lokasekúndum fyrri hálfleiks þegar hann tók boltann viðstöðulaust eftir hornspyrnu og stýrði honum upp í samskeytin. Einkar glæsilegt mark og staðan hálfleik, 1-0 fyrir gestina. Það var svo á 78. mínútu að Þórsarar náðu að jafna metin og það gerði Einar Sigþórsson þegar hann fékk boltann inn í teig og þrumaði boltanum í netið. Einar var svo aftur á ferðinni á 90. mínútu leiksins þegar hann skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf frá hægri kanti og tryggði Þór öll þrjú stigin í leiknum.

Eftir leikinn hefur Þór 17 stig í níunda sæti deildarinnar.

Nýjast