Bryndís Rún Hansen, 15 ára sundkona úr Sundfélaginu Óðni, bætti á sunnudaginn Íslandsmetið í 50 m flugsundi í 50 m laug á tímanum 27,93 sekúndum. Metið setti hún á Evrópumeistaramóti ungmenna í Belgrad í Serbíu. Bryndís tryggði sér jafnframt sæti í úrslitum í sundinu, eini íslenski sundmaðurinn sem náði svo langt á mótinu.
Bryndís er fyrsta íslenska konan sem syndir 50 m flugsund undir 28 sekúndum í 50 m laug en gamla metið átti Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, 28,17 sekúndur, frá árinu 2004. Bryndís keppti í alls fimm greinum og auk Íslandsmetsins setti hún einnig Akureyrarmet í 100 m flugsundi, 50 m skriðsundi og 100 m skriðsundi. Stórbætti hún árangur sinn í öllum þessum greinum.
Bryndís Rún er ein efnilegasta sundkona landsins. Hún hefur verið í fremstu röð í unglingaflokkum undanfarin ár, er sundmaður Akureyrar 2007 og er árangur hennar í Belgrad sennilega einn besti árangur sem sundmaður frá Akureyri hefur náð. En það voru fleiri sundmenn í Óðni í eldlínunni um helgina. Á Norðurlandamóti ungmenna sem haldið var í Tampere í Finnlandi keppti Elín Erla Káradóttir og stóð hún sig einnig frábærlega. Hún keppti í þremur greinum og setti tvö Akureyrarmet stúlkna, í 200 m skriðsundi og 200 m fjórsundi. Þá var hún einnig í boðsundssveit Íslands.