Sveinn Sigmundsson bóndi á Vatnsenda í Eyjafjarðarsveit segir vorið í ár allt annað en í fyrra. "Það var svo þurrt og kalt í fyrra en núna er búið að vera raki og hlýindi, þannig að við fáum allt öðruvísi hey," segir Sveinn. Hann segir bændalífið þyngjast með árunum og róðurinn vera erfiðan.
En þó bændur hafi í nógu að snúast á vorin við sín skyldustörf, þá er ýmislegt annað sem bændur hafa fyrir stafni á þessum árstíma. Árni Arnsteinsson bóndi í Stóra-Dunhaga í Hörgárbyggð hefur undanfarin ár tekið á móti leikskólakrökkum og sýnt þeim lífið í sveitinni og hvað náttúran hefur upp á að bjóða. Þegar blaðamaður hafði samband við Árna var hann sinna leikskólabörnum en gaf sér samt tíma í smá spjall. "Leikskólabörnin koma í byrjun maí og þessar heimsóknir standa yfir í þrjár til fjórar vikur, þetta tengist náttúrulega sauðburðinum," segir Árni. Hann segir að um 600-800 börn af leikskólum séu að koma árlega og áhuginn hjá börnunum sé mikill enda sé alltaf stemming að koma í sveitina.