Bæjarstjórinn hefur drepið stærstu helgina í ferðaþjónustu á svæðinu

"Bæjarstjórinn á Akureyri hefur, því sem næst upp á sitt einsdæmi, drepið stærstu helgina í ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu," segir Bragi Bergmann í grein sem birt er hér á vikudagur.is.

"Ég harma það sem bæjarbúi og lýsi fullri ábyrgð á hendur bæjarstjóranum fyrir heimatilbúinn niðurskurð hans í atvinnugreinum sem þurfa að vaxa og dafna," segir Bragi ennfremur í grein sinni en hann er einn stofnenda Vina Akureyrar og hefur verið í forsvari fyrir fjölskylduhátíðina "Ein með öllu" um verslunarmannahelgina undanfarin ár.

Grein Braga ber yfirskriftina; Bless Akureyri - hugleiðingar um hátíðahöld á Akureyri um verslunarmannahelgi.

Bragi gagnrýnir bæjaryfirvöld harkalega í grein sinni og þá sérstaklega Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra. Hann segir að Sigrún Björk hafi ákveðið fjórum dögum fyrir verslunarmannahelgi í fyrra að hækka aldurstakmarkið á tjaldsvæðum bæjarins úr 18 árum í 23 ár. "Með ákvörðun sinni sveik hún, vísvitandi, loforð sem bæði forseti bæjarstjórnar og staðgengill bæjarstjóra höfðu gefið Vinum Akureyrar um að ekki yrði hróflað við 18 ára aldurstakmarkinu. Þessi svik bæjarstjóra á elleftu stundu eyðilögðu hátíðina í fyrra og er óvenjulega skýrt dæmi um valdhroka," segir Bragi í grein sinni.

Hann segir að það hafi legið fyrir í águst í fyrra að Vinir Akureyrar myndu ekki standa að hátíð um verslunarmannahelgi á Akureyri eftirleiðis nema 18 ára aldursmarkið yrði tekið upp að nýju á tjaldsvæðunum. Þrátt fyrir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu hafi enn engin svör borist nú, þegar komið er fram undir miðjan júní 2008.

"Bæjarstjórinn með fulltingi Akureyrarstofu hefur ákveðið að hverfa 15 ár aftur í tímann og freista þess að gera Akureyri að "dauðum bæ" á ný um verslunarmannahelgar. Kannski mótmæla hinir eiginlegu hagsmunaaðilar valdhrokanum. Kannski fáum við að nýju skipulagslitla og virkilega sukksama helgi á borð við verslunarmannahelgina "hátíðarlausa" árið 2000? Hver veit? Í það minnsta er búið að stúta fjölskylduvæna hlutanum sem Vinir Akureyrar hafa lagt fram af stolti og metnaði síðustu 7 ár," segir Bragi.

Hann segir afskiptum sínum af hátíðarhöldum um verslunarmannahelgi á Akureyri sé lokið. "Ég votta 9 af hverjum 10 Akureyringum samúð mína vegna þess að vilji þeirra er að engu hafður. Margir úr þeim hópi munu í fyrsta sinn í mörg ár horfa á eftir unglingunum sínum hverfa burt úr bænum um verslunarmannahelgi og vona að þeir skili sér til baka heilu og höldnu. Loks votta ég aðilum í verslun og þjónustu á Akureyri samúð mína. Þeir standa frammi fyrir því, einu sinni enn, að finna upp hjólið. Tíminn er skammur og hættan er sú að það verði ferkantað," segir Bragi m.a. í grein sinni, sem birtist hér á vefsíðunni.

Nýjast