Fjöldi fólks lagði leið sína niður að Höepfnersbryggju við Drottningarbraut á Akureyri til að horfa á Arngrím valsa í
háloftunum og mynda reykhringi á listflugvél sinni eftir takti valsins sem hljómaði í útvarpinu. Jón Hlöðver Áskelsson,
tónskáld og einn af stofnendum AIM Festivals, samdi valsinn sérstaklega fyrir hátíðina og Kristján Edelstein, tónlistarmaður, útsetti.
AIM Festival er nú haldið í þriðja sinn á Akureyri og óhætt er að segja að bærinn verði á iði næstu fimm daga
því boðið er upp á 19 tónleika á 10 mismunandi stöðum. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi því
boðið er upp á alla tegund tónlistar: popp, rokk, djass, pönk, blús og klassík.
Meðal þeirra sem fram koma eru: Trompetleikarinn Sebastian Studnitzky, Hjálmar, Mannakorn, Mugison, Mótettukór Hallgrímskirkju með ofurbassanum Vladimir
Miller, Park Project og Hrund Ósk Árnadóttir, Múgsefjun, Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson, Sickbird, Hoodangers,
Bráðavaktin, Helgi og hljóðfæraleikararnir, Retro Stefson, Bráðavaktin, Hvanndalsbræður, Von, N3, Skítamórall og Ferð án
fyrirheits. Nánari upplýsingar um AIM Festival og dagskráin öll er inni á heimasíðu hátíðarinnar: aimfestival.is.