„Maður hefur auðvitað gott af þessu, hreyfing stuðlar að vellíðan“

Kári Páll landaði 2. sæti í Buch göngunni á Húsavík um Páskana. Með honum á myndinn eru Unnsteinn Jó…
Kári Páll landaði 2. sæti í Buch göngunni á Húsavík um Páskana. Með honum á myndinn eru Unnsteinn Jónsson (1. Sæti) og Albert M. Högnason (3.sæti). Myndir: Aija Kotleva.

Lýðheilsa er orð sem hefur verið áberandi í umræðunni undan farin ár en lýðheilsustarf snýst um það að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og líðan með heilsueflingu og forvörnum. Óhætt er að fullyrða að mikil vakning hafi orðið um mikilvægi góðrar lýðheilsu þjóðarinnar. Fjölmörgum lýðheilsuátökum hefur verið ýtt úr vör um allt land og samhliða því má segja að sprenging hafi orðið í ýmis konar heilsurækt undir regnhlífarhugtakinu  almenningsíþróttir. Þar má nefna hlaup, hjólreiðar, gönguskíði og margt fleira sem fólk stundar sér til ánægju og heilsueflingar, gjarna utan skipulagðra íþróttafélaga.

Kári Páll

Kári Páll Jónasson er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem stundað hefur almenningsíþróttir af miklu kappi, raunar mun lengur en þessi tvö hugtök; lýðheilsa og almenningsíþróttir rötuðu inn í almenna umræðu.

 Allt er sextugum fært

Kári Páll heldur upp á sextugsafmæli sitt í júlí og sennilega þarf doktorsgráðu í stærðfræði til að halda utan um alla þá kílómetra sem hann hefur lagt að baki sér; ýmist á hlaupum, hjóli, sundi, á göngu til rjúpna, nú eða við uppáhalds áhugamál hans; gönguskíðin.

Um síðastliðna helgi lauk Kári Páll síðasta Íslandsgöngumóti vetrarins en hann tók þátt í öllum sjö keppnum mótaraðarinnar, fyrstur Húsavíkinga.

Íslandsgangan er röð skíðagöngumóta sem skíðagöngunefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Henni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.

Í mótaröðinni eru sjö skíðagöngumót sem haldin eru víðs vegar um landið. Lágmarksvegalengd í stigakeppni Íslandsgöngunnar er 20 km en í hverri göngu eru einnig í boði styttri vegalengdir þannig að allir eiga að geta fundið brautir við sitt hæfi, bæði þrautþjálfað keppnisfólk, trimmarar og jafnvel hreinir byrjendur. Markmiðið er að ná til sem flestra þar sem hvert og eitt getur verið með á eigin forsendum. þau, sem ganga lengstu vegalengd sem er í boði í hverju móti, taka þannig þátt í stigakeppni mótaraðarinnar og í lok síðasta móts vetrarins eru krýndir stigameistarar. 

Í fantaformi

Kári Páll keppti í flokki 60-69 ára  og endaði í 2. sæti, samanlagt á mótaröðinni. Hann segir göngurnar miserfiðar,  allt frá 20 km. upp í 50 km. „Ætli Fossvatnsgangan á Ísafirði hafi ekki verið erfiðust, enda mikið af brekkum,“ segir Kári Páll og bætir við að hann finni alveg fyrir svona harki en með góðum undirbúningi komist hann nokkuð vel í gegnum þetta. Kári Páll er enda í fantaformi og stoppar aldrei. Hann segist nýta veturinn vel og fari á skíði allt að hundrað sinnum frá desember og fram í maí í göngubraut Húsavíkinga á Reykjaheiði. „Maður verður að stunda þetta jafnt og þétt yfir veturinn ef maður ætlar að taka þátt í þessum mótum. En fyrst og fremst geri ég þetta af því ég hef gaman af því,“ útskýrir hann og bætir við að yfirleitt gangi hann í klukkutíma í senn. „Gjarna eitthvað meira um helgar.“

Gefið í eftir aldamót

Kári Páll

Eins og vikið var að hér að ofan, var lítið verið að ræða lýðheilsu þegar Kári Páll keypti sér fyrstu gönguskíðin um tvítugt. Síðan þá hefur hann vart stoppað yfir veturinn en segir að upp úr aldamótum hafi hann farið að taka sportið af meiri alvöru.

„Þegar ég byrjaði, þá þóttu menn vera óttalegir furðufuglar sem nenntu að standa í þessu. Nú eru furðufuglarnir þeir sem ekki ganga á skíðum,“ segir Kári Páll og glottir.

Hann segir að um aldamótin hafi Ingþór Bjarnason pólfari komið til Húsavíkur og rifið sportið upp á miklu hærra plan en áður þekktist.

„Þá fórum við sem vorum í þessu að kaupa okkur keppnisskíði og eyða meiri tíma í sportið. Við tókum m.a. þátt í Vasa göngunni [90 km.] í Svíþjóð ,“ segir  Kári Páll og bætir við að á þessum tíma hafi  gönguskíðin hafi verið hobbý sem hann stundað af og til en snögglega breyst í áhugamál sem nærri mætti kalla áráttu.

Þegar bitið er í sig

Gönguskíði er ekki eina áhugamál Kára Páls enda árstíðabundið sport. Þó hann vinni fulla vinnudaga og oft vel rúmlega það sem netagerðarmeistari, þá getur hann aldrei hugsað sér að setja tærnar upp í loft að vinnudegi loknum. Á sumrin eru það hjólreiðarnar sem eiga hug hans allan og leggur hann að baki sé 40 km. flesta daga yfir sumarið. Og oft mun meira.

Fyrir meira en áratug tók Kári Páll þátt í Ólympískri þríþraut. Hann fékk strax bakteríuna og beit það í  sig að hann skyldi taka þátt,10 ár í röð. Þeir sem þekkja Kára Pál vita að ef hann bítur eitthvað í sig þá hættir hann ekki fyrr en hann er búinn að standa við það. Og auðvitað gerði hann það.

Fyrir þau ykkar sem eruð að velta því fyrir ykkur hvað felst í ólympískri þríþraut, þá er það aldeilis ekki einhver sunnudagsgöngutúr. Til að klára slíka þraut þarf að synda 1500 metra, hjóla 40 km. og hlaupa 10. Km. Það segir sig sjálft að slíkt er ekki afrekað með sófahangsi, hvað þá 10 ár í röð. Slíkt er aðeins gert á eljunni og þrotlausri þjálfun.

„Ég hafði mjög gaman að þessu en þetta kallaði auðvitað á talsverðan undirbúning. Maður veður ekki af stað í svona lagað nema æfa vel áður,“ útskýrir Kári Páll hógvær og bætir við að hann hafi lítið komið nálægt þríþrautinni eftir að tugnum var náð. Hann hafi þó tekið þátt í einu móti sem haldið var á Húsavík en útilokar ekki að taka þátt aftur einhvern tíma. Hann hjóli þó talsvert á hverju sumri en sé minna í hlaupum og sundi.

 Helvíti gaman

Spurður að því hvað hann fái út úr þessu öllu saman segir Kári Páll að fyrst og fremst sé það gleðin. „Maður hefur auðvitað gott af þessu, hreyfing stuðlar að vellíðan og svo hef ég líka svo helvíti gaman að þessu.  „Gönguskíðin eru samt lang skemmtilegasta sportið, þar líður mér best.“

Þá viðurkennir Kári Páll að það blundi alltaf í sér að taka einn járnkarl (3800m sund, 180km hjól og 42km hlaup) einhvern tímann en það kalli þó á langan undirbúning, líka yfir veturinn. „Eins og ég sagði, þá eru skíðin uppáhalds sportið og maður tímir varla að taka tíma frá þeim yfir veturinn.“

Það má fylgja með sögunni að Kári Páll á sér reyndar annað vetraráhugamál en það er að ganga til rjúpna, enda mikið náttúrubarn. „Ég skít mér alltaf í matinn á hverju ári enda ekki hægt að hugsa sér jólin án rjúpna. Á rjúpnaveiðum finn ég fyrir hugarró og ekki spillir fyrir að stundum leyfi ég mér að sameina mín tvö helstu áhugamál og geng á skíðum til rjúpna,“ segir Kári Páll að lokum og ekki er laust við að það birtist glampi í augum hans.

 


Athugasemdir

Nýjast