Zontakonur á Akureyri styðja útgáfu ljóðabókar

Zontaklúbbur Akureyrar ákvað í vor að styrkja Nedeljka Marijan, Nenu, á Akureyri við útgáfu ljóðabókar. Nena kom til Akureyrar með eiginmanni sínum og tveimur börnum í hópi flóttafólks í marsmánuði árið 2003. Hún er mikil listakona, yrkir, málar, heklar og saumar. Samkvæmt upplýsingum frá Önnu G. Thorarensen fráfarandi formanni Zontaklúbbs Akureyrar, mun ljóðabókin bera nafnið Tár, kerti og blóm og eru ljóðin bæði á serbnesku og íslensku. Þau eru ort í Króatíu og á Íslandi.  Nena skrifar ávarp til lesenda þar sem hún segir að bókin sé skrifuð til að segja hvernig henni líði og ef lesandi finni villu þá sé það einmitt ein af óskum hennar að læra meiri íslensku.  Ljóðið hér á eftir orti Nena í desember sama ár og hún kom til Íslands.

Hvort ég get

Í sjálfri mér er mikill efi og veikburða von

Ég spyr sjálfa mig hvað er ég að gera núna?

Reika ég um án vonar

hve langur tími mun líða?

það er erfitt alla daga

alla morgna nýjar áhyggjur.

Reika ég um án vonar

hve langur tími mun líða?

Mig vantar orð.

Ég er vonlaus eins og bátskel í feikna brimróti.

Að lokum mun ég vita,

hvort ég flýt eða sekk.

                                              Á Íslandi 2.12.2003

 

 

Zonta er alþjóðleg samtök sem vinna að bættum hag kvenna um heim allan. Samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum í Buffalo árið 1919 og eru höfuðstöðvar þeirra í Chicago í Bandaríkjunum. Zontaklúbbar eru starfandi í 67 löndum og vinna þeir m.a. með UNIFEM og UNICEF að verkefnum til að bæta stöðu kvenna, efla sjálfsvitund þeirra og sjálfstæði. Fyrsti klúbburinn var stofnaður hér á landi árið 1941 en í dag eru klúbbarnir alls sjö víðsvegar um landið. Zontasamband Íslands var stofnað 1987. Zontaklúbbur Akureyrar var stofnaður árið 1949 og eru fundir haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.

Nýjast