Zalibuna niður Hlíðarfjall

Hér má sjá Davíð í samskonar sleða og ætlunin er að setja upp í Hlíðarfjalli.
Hér má sjá Davíð í samskonar sleða og ætlunin er að setja upp í Hlíðarfjalli.

Til stendur að setja upp eins manns sleðarennibraut niður Andrésarbrekkuna í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar sem yrði opin yfir sumartímann. Á bakvið verkefnið er félagið Zalibuna sem samanstendur af fjórum ungum frumkvöðlum sem útskrifuðust frá verkfræðisviði Háskóla Íslands í fyrra og þróuðu hugmyndina í lokaverkefni sínu. Að lokinni útskrift sáu þau að um væri að ræða nýtt og öflugt tækifæri í ferðaþjónustu og ákváðu því að fara með hugmyndina lengra og stofna fyrirtæki. 

Markmiðið er að bregðast við gífulegri uppsveiflu í ferðaþjónustu á Íslandi og svala adrenalínþyrstum ferðamönnum með því að bjóða upp á ódýra og stutta afþreyingu í fallegri náttúru Íslands. Blaðamaður Vikudags ræddi við Davíð Örn Símonarson framkvæmdarstjóra fyrirtækisins um hugmyndina og hvernig staðan á verkefninu væri.

"Hlíðarfjall í raun fullkomin staðsetning"

Upprunalega ætlaði Zalibuna að setja upp samskonar sleðabraut við Kambana fyrir sunnan. Davíð útskýrir afhverju ekkert varð úr þeirri hugmynd.

"Eftir að við höfðum útskrifast frá háskólanum og stofnað félagið Zalibuna ehf. fórum við virkilega að hugsa hvar væri hagkvæmast að setja upp fyrstu zalibunu brautina. Gífurlegur fjöldi ferðamanna keyrir um Suðurland og því voru Kambarnir tilvalinn staður þar sem þetta er ótrúlega fallegt svæði með þvílíku útsýni og þar værum við með markhópinn okkar beint í æð. Svo kom að því að við þurftum gatnamót upp á Hellisheiði að svæðinu okkar en það þurfti Orkuveita Reykjavíkur einnig, nema 6 kílómetrum ofar á heiðinni. Það endaði þannig að Vegagerðin vildi ekki byggja tvö gatnamót og því varð ljóst að kostnaðurinn sem myndi falla á okkur, að leggja 6 kílómetra veg að hinum gatnamótunum, væri of hár og verkefnið yrði ekki arðbært lengur".

En hvað olli því að þau ákváðu að færa sig norður yfir heiðar ?

"Eftir að hafa unnið að þessu verkefni í tæpt ár með það að leiðarljósi að setja upp fyrstu brautina í Kömbunum stóðum við nú frammi fyrir því að gefast upp eða finna nýjan stað. Það kom ávallt bara eitt til greina og það var að leita að annarri staðsetningu. Við skoðuðum hin og þessi fjöll og fjallshlíðar og komumst síðan að þeirri niðurstöðu að Hlíðarfjall væri í raun fullkomin staðsetning. Þar er allt til alls og möguleikinn á að gera Hlíðarfjall að heilsársviðkomustað var mjög heillandi."

Stólalyftan nýtt til að ferja fólk upp

Davíð segir að Zalibuna muni nýta sér þá aðstöðu sem er til staðar á svæðinu.  "Við munum nota stólalyftuna til þess að ferja fólk upp. Skíðaskálinn verður síðan nýttur sem kaffihús með útsýni yfir allan Eyjafjörðinn. Niður Andrésarbrekkuna mun svo liggja 1300 m langur álprófíll sem sleðarnir festast á og þú getur þotið niður fjallið.  Davíð segir einnig að möguleikarnir sem fylgja því að gera Hlíðarfjall að heilsársviðkomustað séu mjög spennandi. "Hægt er að byggja upp mjög skemmtilegt svæði í fjallinu með allskonar afþreyingu. Nú þegar er búið að fara í gegnum deiluskipulag bygging á kláf, nýjum skála og fleira og það má segja að möguleikarnir séu endalausir."

Nú velta sjálfsagt sumir fyrir sér hvort að brautin muni þvælast fyrir skíðafólki á veturna. Á því er hinsvegar hagkvæm lausn. "Það sem er svo skemmtilegt og heillandi við þessar brautir er að engin jarðvegs eða steypuvinna á sér stað. Brautin er negld niður með 6 metra millibili sem gerir það að verkum að þegar fer að hausta er brautin bara tekin upp og ekki sést á brekkunni. Svo er bara rennt sér á skíðum yfir vetrartímann og þegar snjórinn fer að minnka í fjallinu er brautin einfaldlega sett aftur upp."

Austurrískur framleiðandi kom til landsins

Verkefnið er nú í ferli innan stjórnsýslunnar og á meðan bíður Zalibuna í startholunum. "Staðan á verkefninu er sú að Austurríski framleiðandinn sem hannar og framleiðir þessar tæknilegu rennibrautir kom hingað til lands í byrjun nóvember. Við eyddum öllum tímanum sem framleiðendurnir voru hér á landi á Akureyri þar sem verið var að taka út Hlíðarfjall, hitta fulltrúa frá bæjarstjórninni og fjárfestingarsjóðnum Tækifæri. Nú er þetta að fara í gegnum formlegt ferli hjá bæjarstjórninni en ég er mjög bjartsýnn á að það gangi fljótt og vel fyrir sig. Framleiðandinn er tilbúinn að hefja hönnun og framleiðslu á brautinni um leið og við fáum grænt ljós á að gera Hlíðarfjall að heilsársviðkomustað.  Það á án efa eftir að laða að fjöldann allan af ferðamönnum norður, bæði innlendum og erlendum ".

-Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags.

 

Nýjast