Eftir miklar umræður um hvaða leiðir væru færar til að tryggja að skipulögð fjölskylduhátíð breyttist ekki í hamslausa útihátíð greip bæjarstjóri til þess ráðs að takmarka aðgang unglinga að tjaldsvæðum bæjarins um þessa verslunarmannahelgi. Ákvörðunin var tekin af illri nauðsyn en því miður var þetta eina færa leiðin til að koma böndum á ástandið sem ríkt hefur í bænum um verslunarmannahelgar undanfarin ár. Þessi ákvörðun var tekin og ég stend við hana.
Þessar ráðstafanir báru greinilegan árangur og hefur fjöldi bæjarbúa haft samband við bæjaryfirvöld og lýst ánægju sinni með hvernig til tókst. Allt annar bragur var á tjaldsvæðum bæjarins og samkvæmt upplýsingum lögreglu var mun rólegra í bænum en undanfarnar verslunarmannahelgar. Í fyrsta sinn í langan tíma var um sannkallaða fjölskylduhátíð að ræða.
Skipuleggjendur hátíðarinnar hafa haldið því fram að þessar aðgerðir séu ástæðan fyrir því að helmingi færri sóttu bæinn heim um þessa helgi en í fyrra, eða um 6000 manns. Í því sambandi ber að geta þess að veðurspá fyrir landið þessa helgi var verst fyrir Norðurland og ekki er vafi á að slæmt veður hafði mikil áhrif á aðsóknina að hátíðinni. Þetta kom einnig skýrt fram í dræmri aðsókn að Síldarævintýrinu á Siglufirði. Í frétti frá Speli segir ennfremur: “Umferðin um Hvalfjarðargöng var um 4% minni um nýliðna verslunarmannahelgi en um sömu helgi í fyrra. Núna fóru 37.400 bílar um göngin frá fimmtudegi til mánudags en 39.000 á sama tíma í fyrra, sem er fækkun um 1.600 bíla.” Það er því ljóst að mun fleiri þættir en aldurstakmark á tjaldsvæðum ollu minni aðsókn að hátíðinni í ár en í fyrra.
Mikið hefur verið rætt um þessar ráðstafanir meðal bæjarbúa og annars staðar undanfarna daga. Nú þurfa Akureyringar hins vegar að slíðra sverðin og nota næsta árið til að ákveða hvernig standa beri að fjölskylduhátíðum í bænum til framtíðar."
Akureyri 9. ágúst 2007
Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri.