Yfir 30 umsóknir borist um starf sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar

Yfir 30 umsóknir höfðu borist um starf sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar í gær en umsóknarfrestur rann út sl. sunnudag. Arnar Árnason oddviti Eyjafjarðarsveitar var að vonum ánægður með þennan mikla áhuga á starfinu, frá fólki bæði af höfuðborgarsvæðinu og hér fyrir norðan. Arnar sagðist hafa átt von á mörgum umsóknum um starfið en þessi mikli áhugi hafi farið fram úr björtustu vonum. "Það eru greinilega margir sem telja sveitarfélagið spennandi, sem það vissulega er og hér er mikill uppgangur," sagði Arnar. Hann sagði stefnt að því að ráða nýjan sveitarstjóra fljótlega eftir páska. Í Eyjafjarðarsveit er rekinn öflugur landbúnaður en vegna nálægðar við Akureyri býður sveitarfélagið kosti hins klassíska sveitasamfélags og um leið eiginleika þéttbýlis. Arnar sagði að mikil ásókn hafi verið í byggingarlóðir í sveitarfélaginu og þá hafi Hrafnagilsskóli, sem m.a. hlaut Íslensku menntaverðlaunin á síðasta ári, mikið aðdráttarafl. Nýr sveitarstjóri tekur við af Bjarna Kristjánssyni, sem gegnt hefur starfinu frá 1998 og var enduráðinn til tveggja ára eftir sveitarstjórnarkosningarnar fyrir tæpum tveimur árum.

Nýjast