Vináttuhlaupið hófst á Akureyri í hádeginu í dag

Þrjú hundruð börn á aldrinum fjögurra ára og upp úr sameinuðust um vináttuhugsjónina með bæjarráði Akureyrar og alþjóðlegu boðhlaupsliði á hlaupabrautinni á Akureyrarvelli í hádeginu í dag. Við það tækifæri var Vináttuhlaupið á Íslandi sett og bæjarstjórinn, Sigrún Björk Jakobsdóttir, hljóp fyrsta spölinn með logandi Vináttukyndilinn. Kyndillinn var síðan afhentur átta manna alþjóðlegu hlaupaliði sem mun bera hann til Reykjavíkur, með fulltingi ungmennafélaga og almennings. Börnin 300 á Akureyri komu úr leikskólum og íþróttafélögum bæjarins og voru búin að læra Vináttuhlaupslagið sem sungið var við setninguna. Að því loknu fylgdu þau bæjarstjóranum og bæjarfulltrúum einn hring í kringum Akureyrarvöll. Einnig fengu börnin að handleika kyndilinn og óska sér einhvers um leið.

Þar með voru þau fullgildir meðlimir í Vináttuhlaupsliðinu sem fer um öll 49 lönd Evrópu í boðhlaupi sem hófst 27. mars í Róm og lýkur 6. október í Prag. World Harmony Vináttuhlaupið fer fram í yfir 100 löndum í ár og er gert ráð fyrir að þátttakendur verði vel á aðra milljón. Vináttuhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem stofnað var árið 1987 af hugsjónamanninum Sri Chimnoy. Tilgangur hlaupsins er að efla vináttu og skilning. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir sjötíu löndum. Heimasíða hlaupsins er www.worldharmonyrun.org/is.

Nýjast