,,Vínarbrauð með glassúr í breiðum, stórir snúðar og svo Valash og Cream Soda"

Ingólfur Sverrisson við sjálfan Blómabilinn  Mynd  Ingólfur Sv.
Ingólfur Sverrisson við sjálfan Blómabilinn Mynd Ingólfur Sv.

Samstaða og málafylgja almennings hefur oft lyft Grettistaki og komið mörgu góðu til leiðar. Ekki er langt síðan að ríki og sveitafélög drógu lappirnar þegar kom að því að skipuleggja og byggja grunnstoðir samfélagsins. Langafar okkar og -ömmur gengu ekki í skóla enda voru þeir ekki til.  Þess í stað lærðu þau að stauta í heimahúsum og eitthvað meira ef hugur og efni stóðu til. Sjúkrahús voru lengst af óþekkt fyrirbrigði og fólk lá í kör heima og dó þar Drottni sínum. Svo bárust fréttir af því að í útlöndum væri farið að byggja eitthvað sem hétu sjúkrahús og skólar. Risu þá einhverjir upp við dogg og spurðu: „Eigum við kannski að gera slíkt hið sama?” Vandaðist þá málið því fram að því voru slík stórvirki ekki á könnu yfirvalda hér á landi enda helstu viðfangsefni þeirra  að ráðstafa hreppsómögum, kveða upp dóma, refsa ógæfufólki og reyna að stilla til friðar þegar bændur flugust á. En þá tók almenningur við sér - einkum konur - og beittu sér fyrir uppbyggingu sjúkrahúsa. Með því framtaki ýtti þetta góða fólk við yfirvöldum að taka til hendi og í framhaldinu fóru hjólin loks að snúast.

Á Akureyri höfðu verið tveir spítalar þegar ákveðið var að reisa nýtt sjúkrahús úr steinsteypu en nýta timbrið úr því gamla til að byggja skíðahótel í Hlíðarfjalli. Búið var að hanna myndarlega byggingu en töluvert skorti á að fjármögnun framkvæmda væri tryggð. Þá sýndu bæjarbúar mátt samtakanna því í nokkur ár fór fram víðtæk söfnun í bænum fyrir nýja sjúkrahúsið með söngskemmtunum, tombólum, bösurum og áheitum svo eitthvað sé nefnt. Meira að segja var blómabíllinn á Jónsmessuhátíðinni fyrir sunnan sundlaugina virkjaður til söfnunarinnar samanber meðfylgjandi mynd þar sem ykkar einlægur sést þriggja vetra við rannsóknir á umræddum bíl. Sem dæmi um fjölbreytileika þessarar söfnunar má nefna að við fráfall Jónasar Þórs forstjóra Gefjunar ákváðu starfsmenn verksmiðjunnar að leggja fram af litlum launum sínum fé til sjúkrahússins til minningar um húsbónda sinn. Afraksturinn var fjárupphæð sem nægði til að kosta eitt sjúkraherbergi; gott dæmi um höfðings- og fórnarlund alþýðumanna. Með þessu samstillta átaki bæjarbúa tókst að ljúka byggingunni og flutt þangað á jólaföstu árið 1953.  Sunnudaginn fyrir jól var bæjarbúum boðið að skoða þetta nýja mannvirki þar sem það gnæfði yfir Innbænum. Við nokkrir vinirnir af Eyrinni lögðumst í ferðalag þangað upp eftir enda frétt af veitingum í nýja sjúkrahúsinu og sammála um að slíku tækifæri mætti ekki sleppa. 

Strax þegar við gengum inn í þessa voldugu byggingu sáum við hvað allt var myndarlegt, bjart og vel frá gengið. Þvílíkt hús, hvílíkur tækjabúnaður og  aðstaða til að lækna veikt fólk. Ekki að undra að bæjarbúar lögðu mikið á sig til að sjá slíkan draum rætast.  En þá fyrst urðum við hugfangnir þegar við komum að stóru borði þar sem veitingar höfðu verið bornar fram.  Drottinn minn dýri: Vínarbrauð með glassúr í breiðum, stórir snúðar og svo Valash og Cream Soda eins og hver vildi. Alsælan helltist yfir okkur félagana og sannfærði okkur endanlega um nauðsyn þessa nýja sjúkrahúss!

Ingólfur Sverrisson      


Athugasemdir

Nýjast