09. nóvember, 2007 - 13:27
Fréttir
Foreldrar barna í Holtahverfi á Akureyri hafa miklar áhyggjur af börnum sínum sem stunda nám í Glerárskóla og íþróttaæfingar á Þórssvæðinu og þurfa að fara yfir Hörgárbraut á þeirri leið sinni. Gangbrautarljós eru við Hörgárbrautina en foreldrar í hverfinu telja nauðsynlegt að byggð verði undirgöng undir þessa fjölförnu götu. Þeir segja að gangbrautarljósin séu tifandi tímasprengja. Aldís Einarsdóttir og maður hennar Hannes Skaftason, sem búa í Einholti, sendu öllum bæjarfulltrúum bréf í byrjun árs, þar sem þau lýstu áhyggjum sínum vegna síaukinnar bílaumferðar á Hörgárbraut. Aldís sagði að þau hafi ekki fengið svar frá einum einasta bæjarfulltrúa. "Ég hef einnig rætt þetta í viðtalstíma bæjarfulltrúa og á fundum hverfisnefndar en það hefur ekkert gerst," sagði Aldís. Gangbrautarvörður er aðeins við gangbrautarljósin þegar börnin eru á leið í skólann á morgnana. Í bréfinu til bæjarfulltrúa segja þau Aldís og Hannes að þessi gangbrautarljós séu tifandi tímasprengja og spurningin sé ekki hvort heldur hvenær alvarlegt slys verður. "Í rúm tvö ár höfum við bent á nauðsyn þess að gera undirgöng en höfum hingað til talað fyrir daufum eyrum," segir ennfremur í bréfinu.
Máli sínu til stuðnings sendu þau með bréfinu orðsendingu sem lögreglan sendi foreldrum barna í Holtahverfi í byrjun árs. Þar kemur fram að lögreglan sinni umferðarefirliti hvern dag og sérstök áhersla sé lögð á eftirlit á þeim tíma sem börn eru á leið til og frá skóla. "Bréf þetta er samið vegna ábendinga ökumanna er aka Hörgárbraut að börn sem eru á leið frá Holtahverfinu í Glerárskóla hagi sér ekki rétt í sambandi við umferðarljósin, þar sem þeim er ætluð leið yfir Hörgárbraut. Þau kveiki ljós en bíði síðan ekki eftir því að græni karlinn komi fyrir gangandi vegfarendur. Það skapi hættu er þau hlaupi út á götuna strax eftir að þau hafi ýtt á takkann." Ennfremur segir í orðsendingu lögreglunnar að með henni sé óskað eftir því að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að fara rétt að við ljósin.