Vilja betrunarhús fyrir geðsjúka afbrotamenn á Akureyri

Mikil þörf er á að fjölga rýmum fyrir geðsjúka afbotamenn. Mjög æskilegt er að slík starfsemi fari fram þar sem sérmenntað fólk er nærtækt og aðstaða góð til þjónustu við fangana. Slík þjónusta og sérmenntun er til staðar á Akureyri.  Þetta kemur fram í greinargerð með tillögu sem bæjarfulltrúar VG, Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigúfsdóttir, lögðu fram á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í vikunni. Tillagan er þess efnis að bæjarstjóra verði falið að kanna möguleika á að Akureyrarbær geri samning við ríkið um að byggja upp og reka betrunarhús fyrir geðsjúka afbrotamenn. Hermann Jón Tómasson bæjarfulltrúi Samfylkingar lagði til að tillögunni yrði vísað til umræðu í vinnuhópi um leiðir til fjölgunar opinberra starfa á Akureyri og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum. Fram kemur í greinargerð með tillögunni að það hljóti að vera mikill kostur að hafa afplánun af þessu tagi á tveimur stöðum á landinu fremur en að byggja við Sogn þar sem réttargeðdeild er nú. Áætla megi að 10 til 12 vistunarpláss hefðu í för með sér fjölbreytt störf.  Ríkisfangelsi verði rekið áfram á Akureyri og myndi það styðja við þessa starfsemi, auk þess sem geðdeild og fullbúið sjúkrahús er til staðar. „Ef miðað er við fjölda rýma til samanburðar við nágrannalöndin ætti að þurfa 21 pláss hérlendis, en 8-9 pláss hafa verið fullnýtt á Sogni undanfarin ár. Slíkt er óviðunandi. Samkvæmt skýrslu um úttekt á stöðu þessara mála sem heilbrigðisráðuneytið lét vinna fyrir tveimur árum er ástandið slíkt að það þolir enga bið," segir í greinargerð bæjarfulltrúa VG.

Nýjast