Viðar í Skíðaþjónustunni segir veturinn þann besta í sögunni

Viðar Garðarsson í Skíðaþjónustinni á Akureyri segir að veturinn í ár sé sá besti sögunni og salan á skíðum hafi verið gríðarleg og slegið öll met. Veturinn hafi verið langur og jafn. "Það skrýtna við veturinn núna er að hann byrjaði snemma og það kom aldrei hlé, venjulega hefur alltaf komið rigningasuddi í eina til tvær vikur og þá hefur salan dottið niður en það var ekkert svoleiðis í ár. Það var bara stöðug sala frá nóvember og út veturinn," sagði Viðar. Hann talar um að hafa fengið tvenna páska þar sem veðrið um helgina fyrir páska hafi verið mjög gott, fólk hafi fjölmennt til hans þá helgi. Hann segir að Andrésar Andar leikarnir hafa verið strembnir því þá hafi salan á reiðhjólum verið byrjuð og leikarnir hafi því lent ofan í því. "Það var svolítið strembið," sagði Viðar hlæjandi, enda kátur með söluna. Hann segir fljúgandi start vera komið á reiðhjólasöluna og að bensínverðið hafi ýtt þar undir. "Krakkar og unglingar fá alltaf hjól, en núna koma þessir fullorðnu líka." Hann segir ennfremur að hjólasalan hafi byrjaði frekar seint í ár vegna þess hve veturinn var langur. "En mér sýnist á öllu að hjólasalan ætli að fara framúr öllu," sagði Viðar að lokum.

Nýjast