VH harmar uppsagnir

Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis harmar þær uppsagnir er komið hafa til framkvæmda á síðustu dögum á Raufarhöfn og í Mývatnssveit sem koma mjög illa við starfsmenn fyrirtækjanna. Um er að ræða nærri 20 starfsmenn sem starfa hjá GPG-Fiskverkun og Sniðlum sem nú er í eigu Kaupfélags Héraðsbúa. Ljóst er að þetta er töluvert áfall fyrir byggðirnar ekki síst í ljósi þess að bæði Raufarhöfn og eins Mývatnssveit hafa orðið fyrir miklum áföllum í atvinnumálum á síðustu árum. Lokun Kísiliðjunnar í Mývatnssveit, lokun loðnubræðslunnar á Raufarhöfn og tilflutningur á veiðiheimildum Jökuls úr byggðalaginu höfðu slæmar afleiðingar fyrir sveitarfélögin og tengda starfsemi. Þrátt fyrir loforð stjórnvalda á sínum tíma um sértækar aðgerðir í atvinnumálum á svæðinu vegna lokunar Kísiliðjunnar og atvinnuástandsins á Raufarhöfn hefur lítið orðið um efndir. Verkalýðsfélagið krefst þess að stjórnvöld standi við gefin loforð og marki auk þess skýra stefnu í byggða- og atvinnumálum sem geri fólki kleift að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þá bendir félagið á að uppsagnir nærri 10 starfsmanna í fiskvinnslu GPG á Raufarhöfn má rekja beint til niðurskurðar stjórnvalda á veiðiheimildum á núverandi fiskveiðiári. Fiskvinnslufólk víða um land býr nú við minnsta atvinnuöryggi sem það hefur búið við síðan fiskveiðistjórnunarkerfið var tekið upp í kringum 1980. Kerfinu var ætlað að tryggja vöxt fiskistofnanna við strendur landsins sem því miður hefur brugðist algjörlega. Sú staðreynd að fiskvinnslufólk hefur aldrei búið við lakara starfsöryggi eru slæm meðmæli með núverandi fiskveiðistjórnun og kallar því á algjöra uppstokkun í stjórnun fiskveiða.

Þá er ekki annað hægt en að gagnrýna boðaðar mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna skertra veiðiheimilda. Fyrir liggur að þær munu ekki gagnast sjómönnum og fiskvinnslufólki sem fara hvað verst út úr skerðingunum. Það er ábyrgðarhluti að rústa atvinnuöryggi fólks án þess að grípa til aðgerða sem gagnast þeim hópum sem sjá fram á erfiða tíma og lítið starfsöryggi á komandi mánuðum.

Nýjast