Aðalfundur Kjördæmisráðs VG fagnar þeim áföngum sem náðst hafa og eru í sjónmáli í samgöngumálum í kjördæminu en minnir jafnframt á að mörg brýn úrlausnarefni hafa enn ekki komist inn á áætlun og/eða full óvissa ríkir um hvenær unnt verði að ráðast í þau. Þar nefnir fundurinn sérstaklega jarðgöng undir Vaðlaheiði, frekari jarðgangaframkvæmdir á Miðausturlandi og milli Vopnafjarðar og Héraðs, auk þess að kláraðir verði þeir kaflar hringvegarins í Skriðdal og á sunnanverðum Austfjörðum, sem út af standa. Sömuleiðis þá kafla sem eftir eru á Norðausturleiðinni milli Þórshafnar og Vopnafjarðar. Óumflýjanlegt er að gera stórátak í uppbyggingu tengivega og ferðamannavega. Móta þarf stefnu um hálendisvegi, með hvað hætti þeir verða lagðir eða lagfærðir um leið og tekið verði hart á öllum utanvegaakstri og handahófskenndri og stjórnlausri lagningu vegaslóða á hálendinu hætt. Fundurinn gagnrýnir harðlega þann óþolandi drátt sem orðið hefur á því að ráðist sé í löngu tímabærar úrbætur í fjarskipta- og gagnaflutningamálum á landsbyggðinni. Fátt ef nokkuð stendur strjálbýli landsins meira fyrir þrifum nú um stundir en óviðunandi fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikar.
Einnig lýsir fundurinn þungum áhyggjum af vaxandi kjaramisrétti í landinu og leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði krafa um launajöfnuð efst á blaði. Nauðsynlegt er að hækka skattleysismörk og lægstu laun þannig að þau dugi til framfærslu og tryggja með því um leið að unnt sé að manna m.a. störf í umönnunnar- og uppeldisgeiranum og á fleiri sviðum í velferðarþjónustunni, sem núna líður fyrir manneklu og óheyrilegt álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Hluti af jafnlaunaáherslum í komandi kjarasamningum, sem og markvissum aðgerðum stjórnvalda, verður að vera að skora á hólm hinn ólíðandi kynbundna launamun sem síst er á undanhaldi á Íslandi og felur í sér gróf mannréttindabrot og frelsisskerðingu kvenna.