Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á kvöldskóla í húsasmíði næsta vetur: Öll plássin fylltust á augabragði

Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk – og fjarnáms hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri er á innfelldu myn…
Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk – og fjarnáms hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri er á innfelldu myndinni. Stærri myndin er af vef VMA.

Texti: Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

 

„Mikil ásælni í verk- og iðnnám af öllu tagi er ekki ný af nálinni fyrir okkur,“ segir Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk – og fjarnáms hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Nú verður í fyrsta sinn boðið upp á kvöldskóla í húsasmíði og skemmst frá því að segja að færri komust að en vildu. Laus pláss voru 12 talsins er 44 sóttu um. „Það er mikill áhugi fyrir þessu námi úti í samfélaginu, en það fá því miður ekki allir inn sem vilja.“

VMA

Baldvin segir að staðan hafi verið með þessu móti um langa hríð. Öll pláss í bygginga- raf- og málmiðnaðargreinum sem í boði er við skólann séu stútfull. Örlítið bakslag hafi komið í byggingagreinarnar eftir hrun en náði sér fljótt á strik á ný. Eins voru í eina tíð sveiflur í ásókn í skipasmíðagreinar og var þá í takt við hvernig vindar blésu í þjóðfélaginu, mikil ásókn í uppsveiflu en dró mjög úr á samdráttartímum. Baldvin segir að Slippurinn eigi hrós skilið fyrir að bjóða nú alltaf upp á ákveðið mörg pláss fyrir nema sama hvernig staðan er. Það sé m.a. gert til að tyggja að ekki komi upp gap líkt og var í eina tíð þegar íslenskir stálsmiðir voru harla fáir og flytja þurfi inn vinnuafl í þeim greinum.

Fá tækifæri til að afla sér starfsréttinda

Baldvin segir að nýnemar fylli svo til öll pláss í iðngreinum og sé því lítið svigrúm til að koma til móts við þá sem eldri eru. Að jafnaði eru tekið á móti 36 til 48 nýnemum í greinar í byggingar, raf – og málmiðnaði í Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Þeir sem eldri eru en 18 ára hafa því lítinn möguleika á að komast að, nýnemarnir ganga fyrir. Þannig hefur staðan verið lengi hér norðan heiða,“ segir hann. Dæmi séu þess að menn hafi sótt um nám í dagskóla þrívegis en alltaf fengið neitun. Því hafi verið gripið til þess að prófa að bjóða upp á kvöldskólann og viðbrögðin hafi verið gríðarlega mikil. „Það er greinilega þörf fyrir þetta. Margir sem hafa lokið hluta af náminu hafa nú tækifæri á að klára það og eins þeir sem hafa starfað byggingageiranum og aflað sér reynslu fá nú tækifæri á að stunda námið og afla sér starfsréttinda.“

Hann segir viðtökur það góðar að vonandi verði boðið upp á kvöldskóla áfram á komandi árum. Þá hafi þessi mikla ásókn orðið til þess að til stendur að bjóða upp á fleiri valkosti í kvöldskóla. Það sem til greina kemur nú eru A-réttindi vélstjórnar, fyrsta stigið af fjórum til vélstjórnarréttinda og nær til 750kW.

Um 40 manns útskrifaðir úr meistaraskóla á ári

Baldvin nefnir einnig að fyrir tveimur árum hafi verið stofnað til nýs meistaraskóla „og það er brjáluð aðsókn í hann. Það fyllist allt á tveimur til þremur dögum þegar við auglýsum eftir umsóknum,“ segir hann. Sem hugsanleg skýring á miklum áhuga segir hann að alfarið sé um fjarnám að ræða, víða annars staðar þar sem sambærilegt nám er í boði byggist það að hluta upp á lotum sem nemar þurfa að mæta í. Sumir komist með góðu móti ekki frá og vaxi það í augum að sækja um slíkt nám. „Við útskrifum um 40 manns á ári úr okkar meistaraskóla, út öllum iðngreinum og eru bara hæst ánægð með það,“ segir hann.


Nýjast