Vel gert við foreldra barna á Akureyri

Foreldrar á Akureyri munu áfram greiða lág gjöld fyrir dvöl barna hjá dagforeldrum og í leikskólum jafnvel þótt verði af nokkurri lækkun bæjarins á niðurgreiðslum vegna dvalar hjá dagforeldrum. Með því móti verður vonandi öllum foreldrum sem þess óska gefinn kostur á dvöl barna sinna hjá dagforeldri, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.  Einnig skal á það minnt að enginn biðlisti er eftir dvöl barna á leikskólum hér á Akureyri né í frístund í grunnskólum bæjarins. Allar þessar stofnanir eru vel mannaðar og fullnægja óskum foreldra eftir dvöl sem mega teljast mikil forréttindi miðað við ástandið í mörgum öðrum sveitarfélögum. Vegna umræðu um lækkun á niðurgreiðslum vegna daggæslu barna í heimahúsum er rétt að benda á eftirfarandi staðreyndir í málinu. Fjölgun barna í daggæslu hefur verið gríðarleg frá árinu 1999 eða úr 45 börnum í 149 börn árið 2007, þrátt fyrir að fjöldi fæddra barna á ári hafi lítið breyst. Þá hefur kostnaðurinn við þessa þjónustu aukist mjög mikið eða úr rúmum 5 milljónum árið 1999 í tæpar 70 milljónir árið 2007. Samhliða hefur rýmum í leikskólum verið fjölgað um 416. Þegar farið var að taka 18 mánaða börn inn í leikskóla vorið 2006 var talið að börnum í daggæslu myndi fækka, en sú varð ekki raunin heldur varð hún þveröfug.

Á sama tíma var ákveðið að foreldrar greiddu sama gjald fyrir börn í daggæslu og í leikskólum. Þess vegna varð að leita eftir samningum við dagforeldra um hámarksgjald þar sem gjaldskrá þeirra var frjáls og gjaldið því mishátt. Hluti samkomulagsins var að hámarksgjald yrði 65 þúsund krónur á mánuði fyrir átta tíma vistun á dag. Um leið var dagforeldrum skapað starfsöryggi í allt að 10 mánuði á ári ef barni hjá þeim væri boðið pláss í leikskólum Akureyrarbæjar og dagforeldrið fengi ekki annað barn í staðinn. Tryggingin er fólgin í því að Akureyrarbær greiðir dagforeldri áfram eins og ef það væri með barn í vistun þar til annað barn kemur í plássið. Samningurinn var til eins árs og því voru dagforeldrar á Akureyri beðnir um að skipa viðræðuhóp nú í haust til þess að ræða um gildi samningsins og hvort vilji væri til að  endurnýja hann. Á fundi sem Akureyrarbær hélt með dagforeldrum var kynnt sú hugmynd að hætt yrði að miða gjald foreldra við leikskólagjaldskrána frá og með 1. janúar 2008. Þess í stað myndu foreldrar sem eru giftir eða í sambúð greiða 50% af gjaldi dagforeldra á móti Akureyrarbæ og einstæðir foreldrar 40 % á móti 60% Akureyrarbæjar. Þetta var ekki og er ekki hluti af samningi við dagforeldrana.

Það er af illri nauðsyn sem þessi hugmynd er fram komin. Kostnaðurinn við niðurgreiðslur til daggæslu er orðinn miklu meiri en gert var ráð fyrir og því stendur Akureyrarbær frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar að halda niðurgreiðslunum óbreyttum og takamarka fjölda barna sem fá niðurgreiðslu eða að lækka niðurgreiðsluupphæðina til að geta greitt sömu upphæð með öllum börnunum. Forsendan fyrir því að miða greiðslu foreldra fyrir daggæslu við gjaldskrá leikskóla var að barnafjöldinn, sem greitt væri niður með, væri um 130 börn en nú stefnir í að hann verði um 180 á árinu 2008. Að öllu óbreyttu hefði kostnaðurinn við niðurgreiðslur vegna daggæslu barna því stefnt í að verða 85-90 milljónir króna á næsta ári en til ráðstöfunar eru tæpar 60 milljónir. Sú tala hefur hækkað um 40 milljónir frá árinu 2005.
Akureyrarbær heldur því áfram að gera vel við íbúa sína þrátt fyrir þessa breytingu. Í því sambandi má nefna að niðurgreiðsla með barni hjá dagforeldri í 8 klst. vistun á dag nemur samkvæmt tillögunni kr. 34.144,- fyrir börn giftra foreldra og þeirra sem eru í sambúð, en kr. 29.640 í Hafnarfirði, kr. 30.000 í Kópavogi og kr. 31.880 í Reykjavík svo einhver sveitarfélög séu nefnd til samanburðar. Tölurnar í þessum sveitarfélögum segja þó ekkert um hlut foreldra í daggæslukostnaði því gjaldskrá dagforeldra er almennt hærri á þessu svæði. Þess vegna má færa rök fyrir því að foreldrar muni áfram greiða almennt lægra gjald fyrir daggæslu á Akureyri samanborið við foreldra í þessum sveitarfélögum.

Nýjast