25. nóvember, 2007 - 10:26
Fréttir
Starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar verður lagt niður um áramót, þegar nýtt skipurit stofnunarinnar tekur gildi.
Áki Ármann Jónsson hefur gegnt starfinu á liðnum árum, en honum hefur verið boðið nýtt starf syðra, hann verður forstöðumaður fræðslu- og upplýsingasviðs
. Veiðistjórnunarsvið stofnunarinnar verður lagt niður í núverandi mynd að sögn Áka en þess í stað verður á Akureyri náttúru- og dýraverndunardeild. Bjarni Pálsson verður deildarstjóri, en aðrir starfsmenn á brátt fyrrverandi veiðistjórnunarsviði halda sínum störfum. Veiðistjórnunarsviðið rennur inn í nýtt svið, náttúru- og dýravernd eins og vinnuheiti þess er nú.
„Það fækkar hér um einn starfsmann, þeir verða fjórir í stað fimm áður og þá verður sú breyting að það sem áður var svið verður deild. Þetta varð niðurstaðan í þeim skipulagsbreytingum sem gerðar verða á Umhverfisstofnun," segir Áki Ármann og að nýtt starf leggist ágætlega í sig.
Nýtt skipurit tekur gildi 1. janúar nk. og er afrakstur yfirgripsmikillar stefnumótunarvinnu sem staðið hefur frá því í vor. Með breytingunum er verið að skapa „nýjan grundvöll fyrir umræðu um framtíð stofnunarinnar og horfa fram á veginn með opnum huga og jafnframt að svara kröfum stjórnsýsluúttektar sem gerð var á stofnuninni á síðasta ári," segir á vef Umhverfisstofnunar.