14. desember, 2007 - 13:41
Fréttir
Konurnar hjá Mæðrastyrksnefnd Akureyrar hafa í nógu að snúast þessa dagana en margir leita til nefndarinnar fyrir jólin, eins og reyndar árið um kring. Þá eru fjölmargir aðilar reiðubúnir að styðja það góða starf sem unnið er hjá Mæðrastyrksnefnd. Í gær færði Sigurður Harðarson útibússtjóri Kaupþings banka á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd eina milljón króna til starfseminnar. Í morgun afhentu svo sex verkalýðsfélög í Eyjafirði nefndinni styrk að upphæð ein milljón króna.
Á morgun, laugardag, er fyrsti dagur úthlutunar hjá Mæðrastyrksnefnd sem nú er til húsa í Íþróttahöllinni, gengið inn að vestan. Jóna Berta Jónsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Akureyrar veitti styrkjunum viðtöku fyrir hönd nefndarinnar
. Hún sagðist gera ráð fyrir að svipaður fjöldi fólks myndi leita til nefndarinnar fyrir þessi jól og undanfarin ár. "Okkur gengur mjög vel, það eru allir svo ljúfir og góðir við okkur og þeir eru margir sem vilja leggja eitthvað af mörkum," sagði Jóna Berta. Í ávarpi við athöfnina í morgun, þegar verkalýðsfélögin afhentu styrkinn, lýsti Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, yfir þakklæti fyrir hönd félaganna sex fyrir það mikla og góða starf sem unnið er í nefndinni. "Það er mikil gæfa að eiga að þær konur sem í Mæðrastyrksnefndinni starfa og eru tilbúnar að leggja mikla vinnu af mörkum til þess að rétta hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda til þess að geta búið sér og sínum gleðilega jólahátíð. Það er sárt til þess að hugsa að leggja þurfi til háar upphæðir til að mæta þörfum þessara einstaklinga," sagði Björn. Sigurður Harðarson útibússtjóri Kaupþings banka sagði að undanfarin ár hafi bankinn fært vildarviðskiptavinum bankans jólagjöf. Í ár hafi verið ákveðið að fara aðra leið, tvöfalda þá upphæð sem fór jólagjafir, sem var hálf milljón króna og færa Mæðrastyrksnefnd styrk upp á eina milljón króna. "Þannig viljum við sýna stuðning við það góða starf sem unnið er á vettvangi Mæðrstyrksnefndar," sagði Sigurður.
Verkalýðsfélögin sex sem færðu nefndinni styrk í dag eru Eining-Iðja, Félag byggingamanna Eyjafirði, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Verkstjórafélag Akureyrar og nágrennis. Mæðrastyrksnefnd Akureyrar aðstoðar fólk um allan Eyjafjörð og starfar allan ársins hring þótt mestu annirnar séu nú eins og jafnan áður í kringum jólahátíðina. "Úthlutað verður dagana 15. til 20. desember frá kl. 10 -18, en þó svo við auglýsum ákveðinn tími til umsókna vegna aðstoðar fyrir jólin munum við ekki neita fólki sem á aðstoð þarf að halda og hefur samband við okkur eftir þann tíma. Ábendingar eru einnig vel þegnar ef fólk veit um einhvern sem þarf aðstoð en af einhverjum ástæðum getur ekki óskað eftir henni," segir Jóna Berta.