31. mars, 2008 - 13:52
Fréttir
Vaxandi eftirspurn er eftir þjónustu heimahjúkrunar og virðist sem markmið um að gefa fólki möguleika á að dvelja heima eins lengi og unnt er,
séu að skila sér. Þetta kom fram á fundi félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, þar sem deildastjóri heimahjúkrunar,
Þórdís Rósa Sigurðardóttir, kynnti stöðu heimahjúkrunar. Hún sagði væntingar fólks og fagaðila um meiri
þjónustu aukast hratt. Nauðsynlegt sé að bregðast við aukinni þjónustuþörf vegna fækkunar á rýmum og auknum fjölda
aldraðra. Þá kynnti yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar, Þórir V. Þórisson, stöðuna hjá heimilislæknum og kom fram
hjá honum að mikið álag hefur verið á læknum undanfarið.
Fram kom hjá Þóri að árlegt veikindatímabil inflúensu og kvefs auki mjög ásókn til lækna. Þá hafi breyting á
gjaldskrá sl. áramót, með fríum komum fyrir börn, aukið til muna aðsókn á bráðadagvakt og vakt og bið eftir tímum
hjá heimilislæknum hefur verið að lengjast. Yfirfjölskylduráðgjafi, A. Karólína Stefánsdóttir, fór á fundi
félagsmálaráðs yfir stöðu mála í fjölskylduráðgjöfinni. Bið eftir tíma er um 4 vikur og erfitt að sinna
brýnum málum á viðundandi hátt. Óskað hefur verið eftir viðbótarmönnun til heilbrigðisráðuneytis fyrir
fjárlagagerð 2009. Kynnt voru áform um málþing í október 2008 í tilefni af 20 ára afmæli fjölskylduráðgjafar á
HAK.