29. febrúar, 2008 - 09:57
Fréttir
Unnið er að því af fullum krafti að móta stefnu í sorpmálum, að sögn Hjalta Jóns Sveinssonar formanns umhverfisnefndar
Akureyrarbæjar. Í burðarliðnum er samningur við Flokkun ehf. sem er félag í eigu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Flokkun
hefur boðið Akureyrarbæ upp á margvíslega þjónustu í þessum efnum, m.a. hvað varðar förgun úrgangs, endurvinnslu,
móttöku spilliefna, rekstur mótttökustöðva fyrir úrgang sem og sorphirðu. „Við erum að móta stefnuna, hvernig við viljum standa
að flokkun sorps og markmiðið er að allur almenningur muni í nánustu framtíð flokka það mikið sorp að við þurfum ekki að
urða nema um það bil 20 til 30% af því sorpi sem við nú urðum," segir Hjalti Jón.
Ætlunin er að kynna nýja stefnu í sorpmálum á Umhverfisdeginum, m.a. þá hugmynd að bjóða fólki upp á að hafa
tvær eða jafnvel þrjár sorptunnur við híbýli sín. „Þetta gæti þá virkað þannig að því meira
sem fólk flokkaði því minna þyrfti það að borga," segir hann. Hjalti Jón nefnir að m.a. horft sé til Stykkishólms
í þessum efnum, „en okkar markmið er auðvitað að vera í fararbroddi í þessum málaflokki og við erum býsna langt komin með
að móta stefnuna. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni og það eru spennandi tímar framundan," segir Hjalti Jón.