26. október, 2007 - 10:12
Fréttir
Tvívegis í gær voru sett upp slagsmál unglinga á Akureyri þar sem menn töldu sig vera að „gera upp gamlar sakir" og voru slagsmálin tekin upp og í öðru tilfellinu sett inn á internetið. „Þetta eru unglingar sem gera sér ekki grein fyrir alvarleika málsins og við höfum af þessu áhyggjur," segir Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri. Síðdegis í gær slógust tveir drengir við verslunarmiðstöðina Glerártorg. Þeir eru 15 ára gamlir og viðstaddur slagsmálin var nokkur hópur kunningja. Slagsmálin stóðu stutt yfir og lauk með því að annar lá í götunni og hinn lét höggin dynja á honum. Allt tekið upp og sett á internetið. Lögreglan tók drengina hinsvegar í sína vörslu og lét foreldra þeirra sækja þá á lögreglustöðina. - Í gærkvöld slógust síðan tveir gegn einum við Giljaskóla og voru einnig að „gera upp gamlar sakir". Þau slagsmál munu einnig hafa farið fram að viðstöddum vinum og kunningjum og verið tekin upp, en hafa ekki verið sett á internetið ennþá. Ekki urðu alvarleg meiðsli í þessum slagsmálum að sögn lögreglu.