Hann sagði að verkefnið hefði tekist vel, langflest fyrirtæki og einstaklingar hafi tekið jákvætt í það og verið að vinna í sínum málum. Vissulega séu þó alltaf einhverjir sem megi gera mun betur. „Vissulega eru skiptar skoðanir á því hvað fólk telur vera nytjahluti, sumir segja að hluturinn sé drasl sem á að henda en aðrir eru því ósammála. Svoleiðis mál koma alltaf upp og eru leyst," sagði Alfreð. Hann bætti við; „Þetta er talsverð vinna og kostnaðarsöm fyrir fyrirtæki sem eiga mikið lausadót á sínum lóðum. Til eru dæmi um lóðir þar sem umtalsvert er af brotajárni og þær verða ekki hreinsaðar á snöggan máta en vonandi gengur það sem fyrst."
Alfreð sagði að hann teldi að vel hefði tekist til með átakið og mikið magn af rusli væri búið að fjarlægja af einka-, fyrirtækja- og bæjarlóðum. Hins vegar megi segja að verkefni sem þetta klárist í raun aldrei enda þurfi sífellt að vera að taka til. Því átti Alfreð von á því að hafist verði handa með svipað átak strax næsta vor.