Um Aflið og aflleysið
Frá árinu 2002 hafa starfskonur Aflsins staðið vaktina og veitt þolendum kynferðis- og heimilisofbeldis stuðning og ráðgjöf sem og aðstandendum þeirra. Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að Aflið hafi unnið ómetanlegt starf á þessum tíma. Starf sem byggir að mestu á ósérhlífni og sjálfboðavinnu hugsjónafólks.
Það er því óskiljanlegt hvað stuðningur ríkisins við þessi mikilvægu samtök hefur verið lítill í gegnum tíðina en hann er 3 milljónir árið 2015. Á sama tíma styrkir ríkið ýmis samtök á höfuðborgarsvæðinu sem sinna sambærilegum málum um mun hærri upphæðir. Að sjálfsögðu eru þau ekki ofalin af sínum fjárveitingum en það eru óneitanlega mjög skrítin skilaboð að samtök á landsbyggðinni sem hafa fyrir löngu sannað tilverurétt sinn skuli ekki sitja við sama borð.
Aflið hefur þurft að reiða sig á styrki frá almenningi, fyrirtækjum og úr fjársöfnunum til að halda starfseminni gangandi. Hvergi er hægt að skera niður og sem dæmi þá hafa samtökin ekki einu sinni efni á að ráða starfsmann í hálft starf. Þá er útilokað að Aflið geti aukið faglega þekkingu ráðgjafa á meðan fjárframlögin eru í skötulíki. Ef ekki fæst meira fé í starfsemina lætur eitthvað undan því ekki er endalaust hægt að ætlast til þess að fórnfúst hugsjónafólk haldi starfseminni uppi.
Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgð í þessu máli og ég hef verið mjög hissa á skilningsleysi ráðherra sem virðist telja að samtök sem sinna þolendum kynferðis- og eða heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu geti þjónað öllu landinu. Þótt þar séu vissulega mjög öflug samtök þá hjálpar það ekki þolendum sem búa í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Þá skiptir máli að hjálpin sé nærri og eins aðgengileg og hægt er. Ég treysti því að stjórnvöld sjái að sér og hækki framlög til Aflsins hið snarasta. Annað er ekki ásættanlegt.
Brynhildur Pétursdóttir
þingkona Bjartrar framtíðar