11. apríl, 2008 - 15:02
Fréttir
Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur verður með tónleika í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit sunnudaginn 13. apríl kl. 15.00 og eru þeir liður
í vetrardagskrá Laugarborgar.
Sunna Gunnlaugsdóttir leikur á píanó og með henni Scott McLemore á trommur og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Á
efnisskrá er frumsamin tónlist eftir meðlimi tríósins. Tríó Sunnu hefur verið starfandi í núverandi mynd í rúmt ár
en hjónin Sunna og Scott hafa leikið saman síðan 1993. Sunna hefur flutt tónlist sína um víða veröld og fengið mjög
jákvæða umfjöllun þar sem hún er sögð fella saman þokka evrópsks djass og eldmóð hins bandaríska með
tónsmíðum sem höfða til fleiri en djassunnenda eingöngu. Hún hefur gefið út fjóra geisladiska með eigin tónsmíðum og
náði sá síðasti "Live in Europe" inn á "topp 10" lista á útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum árið 2003 og öðru
sæti í Kanada.